Fyrir nokkrum árum varð hús eitt í eigu hins opinbera fyrir töluverðum árásum veggjakrotara. Ég sá verksummerkin þar sem ég átti leið framhjá umræddu húsi á leið til vinnu, hringdi í þann sem sá um ytra viðhald hússins og lét hann vita af ástandinu. Hann sendi menn sína tafarlaust á staðinn og máluðu þeir yfir skemmdirnar með hraði. Nokkrum dögum síðar var veggjakrotið endurtekið og málararnir mættu að morgni og máluðu yfir. Ekki veit ég hvort peningarnir fyrir spraybrúsum hafi klárast hjá drengjunum, en eftir nokkrar tilraunir gáfust þeir upp og hefur umrætt hús fengið að vera í friði að mestu eftir þetta.
Drengirnir sem þarna voru að verki voru listamenn og ekki hægt annað en að dást að verkum þeirra um leið og málað var yfir þau. Þeir gerðu þetta bara á vitlausum stað og á vitlausum tíma og synd að þeir fengu ekki góðan vegg til að skreyta.
Á fimmtudag boðaði sá blörraði til blaðamannafundar í Reykjavík þar sem hann tilkynnti stofnun nefndar til að ráðast gegn veggjakroti í miðbænum. Með honum voru helstu jólatré bæjarins, lögreglustjóri og slökkviliðsstjóri auk einhverra deildarstjóra hjá Reykjavíkurborg, en enginn málari. Samt tilkynntu þeir að þeir ætluðu að mála yfir veggjakrotið í bænum.
Gósentíð framundan fyrir veggjakrotara hugsaði ég. Blaðamannafundir af því tagi sem sá blörraði og félagar hans héldu eru um leið einhver vitlausasta aðferðin við að byrja baráttuna gegn veggjakroti og vandalisma. Það á bara að byrja, ekki í dag né á morgun, heldur strax og fyrsta veggjakrotið sá dagsins ljós. Þetta átti að ske steinþegjandi og hljóðalaust fyrir löngu síðan og án allra fréttamanna til að koma í veg fyrir að veggjakrotið yrði auglýst. Nú bíða drengirnir eftir því að málararnir komi og máli yfir gamalt veggjakrot svo hægt verði að byrja aftur með nýjar skreytingar.
Það á einfaldlega að beita aðferðum veggjakrotaranna sjálfra við að mála yfir verkin þeirra, framkvæma án kjánalegra blaðamannafunda.
Um leið velti ég því fyrir mér hvar vesalings rónarnir eiga að sofa þegar búið verður að negla fyrir öll op á mannlausum húsum í bænum, því einhversstaðar þurfa þeir að vera rétt eins og sá vondi. Það er hinsvegar efni í allt annan og heilan pistil.
föstudagur, apríl 04, 2008
4. apríl 2008 - Sá blörraði málar hús í miðbænum!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:18
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli