Það var fyrir mörgum árum síðan að skipið sem ég var á, kom til hafnar í Felixstowe í Englandi. Ég þurfti aðeins að skreppa í land og sá þá eldgamlan bíl á flutningafleti sem átti að fara á einhverja sýningu í Englandi. Ekki man ég hvað bíllinn hét og ekki fannst mér hann fagur, furðaði mig reyndar í byrjun á því hve silfurgrár bíllinn var mattur að sjá. Það var ekki fyrr en ég fór að skoða bílinn þar sem hann beið eftirlitslaus á bryggjunni að ég rak augun í sýningarskilti sem lá hirðuleysislega í aftursæti bílsins með ýmsum upplýsingum um bílinn. Þá sá ég að yfirbyggingin var ekki bara silfurgrá, heldur var hún úr silfri, enda var hann sagður einn dýrasti bíll í heimi framleiddur um miðjan þriðja áratug tuttugustu aldar fyrir einhvern mahajara af Indlandi hvað svo sem það þýðir.
Á spjaldinu var þyngd bílsins gefin upp og vóg hann á við þokkalegan vörubíl og þótt ekki væri hann með rafmagnsupphalara var hann með tvöfalt gler og hægt að velja um ólitað gler eða litað. Ekki man ég hvað bíllinn var talinn eyða miklu, en þær tölur voru hrikalegar, svo mikið man ég.
Þessa dagana hafa verið hávær mótmæli vegna hins háa bensínverðs á Íslandi. Ég skil það vel því vissulega kemur bensínverðið við budduna hjá velflestum sem nota bíl að staðaldri. Það er um leið ljóst hverjum sem vill vita, að bensínverðið er mjög lágt í dag miðað við það sem það verður eftir nokkur ár. Það má vera að það taki einhverjar smádýfur en í heildina mun það stíga og stíga og verða óviðráðanlegt fyrir fjölda fólks eftir nokkur ár. Ef ekki verður fundin ódýr leið til framleiðslu eldsneytis sem getur leyst bensín af hólmi munu stórir bensínhákar verða verðlitlir. Enn meiri áhersla verður lögð á léttari bíla. Þyngri málmar í bílum munu hverfa að mestu, en ál og aðrir ódýrir léttmálmar leysa þá af hólmi.
Þessi dökka framtíð er engin framtíð. Hún er þegar orðin nútíð. Níðþungar lúxuskerrur eru að hverfa af götunum. Vegna þessa hefi ég ekki hirt um að styðja mótmæli bílstjóra þótt ég skilji þeirra sjónarmið.
George Dobbljú Bush fór í stríð vegna olíu. Það orsakaði hærra olíuverð og því tapaði hann stríðinu.
-----oOo-----
Systurnar Tárhildur og Hrafnhildur liggja afvelta eftir ýsusporðinn og síðan rjómalagaðan rækjukokteil í eftirrétt ;)
föstudagur, apríl 11, 2008
12. apríl 2008 - Ég man þá tíð er olíufatið kostaði aðeins hundrað dali!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:49
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli