mánudagur, apríl 07, 2008

7. apríl 2008 - Formúlublogg eða hvað?

Sú var tíðin að ég var Formúluaðdáandi og missti helst ekki úr keppni ef mér var það unnt. Ég vaknaði jafnvel á nóttunni til að horfa á beinar útsendingar frá Formúlu 1 þótt vissulega hafi komið upp þau tímabil að áhuginn minnkaði eins og þegar fremsti heimsmeistari allra tíma lá heima í fótbroti haustið 1999.

Minnkaður áhugi tók sig svo upp aftur á síðasta ári þegar þessi sami fremsti heimsmeistari allra tíma fór á eftirlaun saddur keppnisdaga og liðu þá einhver mót sem ég lét mér nægja að heyra fréttirnar af keppninni. Sömu sögu var að segja af tveimur fyrstu mótum þessa árs.

Á sunnudagsmorguninn ákvað ég að horfa á eina keppni til athugunar á því hvort keppnisneistinn væri endurvakinn og kveikti á sjónvarpinu. Síðan þurfti ég að leita uppi hjáleigu Stöðvar 2 þar sem Formúlan átti að vera og fann hana fljótlega, að vísu mjög óskýra þar sem tvær myndir virtust ofan í hvorri annarri. Þrátt fyrir nokkra leit fann ég hvergi skýra rás á sjónvarpinu mínu þótt aðrar sjónvarpsstöðvar væru ágætlega skýrar þar á meðal Ríkissjónvarpið, Skjár 1 og Stöð 2. Þess má geta að ég er ekki með áskrift að Stöð 2 og þarafleiðandi engan myndlykil.

Það var ómögulegt að fylgjast með útsendingunni á þennan hátt og því þurfti ég að fylgjast með atburðum á brautinni á beinni útendingu http://formula1.com/ en þar er ekki um að ræða lifandi mynd af brautinni, einungis allar upplýsingar frá brautinni.

Ég er að velta því fyrir mér hvort þetta sé aðferð Stöðvar 2 til að þvinga fólk sem ekki er með áskrift, að kaupa áskrift til að sjá skýra mynd af keppninni. Það er hinsvegar kolólöglegt því í samningi við sjónvarpsstöðvar er krafa um að keppnin skuli sýnd í óruglaðri útsendingu. Með þessu móti getur Stöð 2 hugsanlega haldið því fram að þeir hafi uppfyllt skilmálana þótt svo sé ekki.

Það væri fróðlegt að vita hvort þessi hálfruglaða útsending hafi verið víðar en hjá mér?

-----oOo-----

Ég fór í bíó á sunnudagskvöldið og sá Stóra planið hans Poppóla deFleur. Ágætlega brosleg mynd en hefði mátt vera aðeins lengri. Það hefði kannski mátt beita skærunum aðeins minna á kostnað fjölda trailera sem voru sýndir á undan myndinni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli