Ég heyrði einhversstaðar umræðu úr borgarstjórn þar sem Hanna Birna borgarfulltrúi talaði um 19. aldar Laugaveginn eins og ekkert væri sjálfsagðara en að breyta Laugaveginum í 19. aldar götumynd sína. Vafalaust hefur hún þetta eftir blörraða kallinum í Spaugstofunni, en gerir þetta fólk sér enga grein fyrir því hvernig Laugavegurinn leit út á 19. öld?
Það er alveg á hreinu að þetta fólk var ekki á Laugaveginum á þeim tíma sem um er rætt því þá myndi ekki heyrast múkk í því einfaldlega vegna þess að mestalla 19. öldina var enginn Laugavegur. Ofan við Bakarabrekkuna lá Suðurlandsvegurinn en Laugavegurinn fékk nafn sitt í lok aldarinnar (1888?) þegar vegur var lagður að Þvottalaugunum og lá að hluta til á gamla Suðurlandsveginum þar sem hann lá austur frá Bakabrekkunni. Ofan Bakarabrekkunnar voru nokkur kotbýli sem nú eru flest horfin, ef ekki hrunin vegna fúa, þá af mannlegum völdum.
Ef Hanna Birna og sá blörraði væru sjálfum sér samkvæm myndu þau láta setja jarðýtur á mestallt svæðið austan við kvosina og breyta svæðinu í græn tún fyrir kýr og kindur bænda í Reykjavíkurkaupstað. Við skulum vona að þeim verði ekki að ósk sinni.
miðvikudagur, apríl 02, 2008
2. apríl 2008 - Af hverju 19. aldar Laugavegur?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:39
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli