föstudagur, apríl 18, 2008

18. apríl 2008 - Um gamalt frímerki á uppboði.



Fyrir einhverjum áratugum síðan mátti lesa frétt um gamalt frímerki í gamla DV og látið að því liggja að ef einhver ætti slíkt frímerki, gæti sá hinn sami eytt restinni af ævinni í suðurhöfum með romm og kók og lúxus það sem eftir væri. Ég gat ekki annað en hlegið því ég vissi að umrætt frímerki, elsta frímerki í heimi, var metið á fáeinar þúsundir íslenskra króna. Enn í dag er hægt að fá þetta ágæta elsta frímerki í heimi á fáeinar þúsundir íslenskra króna ef marka má ebay.

Síðustu tvo dagana hafa borist fréttir af fágætu frímerki á uppboði. Um leið spruttu fram ýmsir spekúlantar sem minnti að þeir hefðu átt slíkt frímerki og ættu kannski enn. Það þyrfti bara að láta meta merkið sem þeir ættu í eigu sinni og þeir gætu eytt ævinni í suðurhöfum með romm og kók og lúxus það sem eftir væri. Aftur hló ég.

Allt frá barnæsku safnaði ég frímerkjum. Það gekk misjafnlega og seldi ég hluta safns míns er ég keypti fyrsta bílinn minn 17 ára að aldri. Ég hélt þó áfram að safna í nokkur ár uns safnið mitt lenti í kassa og í geymslu. Fyrir nokkrum árum síðan er rýmkaðist um hjá mér, tók ég safnið mitt upp úr kössunum og hefi ég haft ánægju af safninu þótt enn vanti mig sama eldmóð og fyrrum hvað snertir frímerkjasöfnun, kom við á frímerkjauppboði fyrir nokkru síðan og fór heim með gullfallegt grafiklistaverk.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að ég á þrjú frímerki í eigu minni sem bera hina frægu yfirprentun “þrír” eins og frímerkið fræga frá 1897 sem senn verður boðið upp vestur í Bandaríkjunum. Um leið verður að hafa í hug að frímerki með yfirprentuninni “þrír” er ekki bara eitt, heldur sex mismunandi og fer það eftir mismunandi tökkun, stóru eða litlu formati á “þrír” og loks hvort rauð yfirprentun “3” er á merkinu eður ei.


Verðmæti þessara fátæklegu frímerkja minna er einungis skráð um fimmtíu þúsund krónur fyrir hvert þeirra, en raunverulegt verðmæti kannski fjórum sinnum lægra enda hefur verulega dregið úr frímerkjasöfnun á síðustu áratugum. Einungis dýrustu frímerkin halda verðgildi sínu en þau eru líka mjög mjög sjaldgæf.


0 ummæli:







Skrifa ummæli