Það var í júní árið 2000 sem ég hitti Lindu Lyon í fyrsta sinn. Ég hafði kynnst henni rúmlega einu ári áður í gegnum netið þar sem hún var að grafast fyrir um uppruna sinn á Íslandi. Það urðu ánægjuleg kynni og fóru mörg kvöldin í að ræða um daginn og veginn auk eins helsta áhugamáls hennar, áhugann fyrir ættingjunum á Íslandi. Það var ekki til að rýra málin að samkvæmt gömlum ættartölum vorum við fimmmenningar, ættartölum sem síðar hafa verið hraktar, en Linda frænka hélt samt áfram að vera Linda frænka í Ameríku, fædd á hlaupársdaginn árið 1944.
Ein stærsta ósk Lindu var að koma í heimsókn til lands forfeðranna, en til Íslands hafði hún aldrei komið. Það var bara einn hængur á. Linda var með lungnasjúkdóm og hafði verið ráðlagt að fara ekki í flug sökum súrefnisskorts og hreyfihömlunar. Það var svo að vori aldamótaársins að Flugleiðir fundu hjá sér þörf á að bjarga málunum og Linda kom til Íslands 24 júní 2000.
Þarna var Linda ljóslifandi komin, sífellt hlæjandi, í hjólastól með súrefniskútinn, í góðum holdum og reykti mikið. Reykingar hennar við þessar aðstæður urðu mér slíkt áfall að ég ákvað að hætta að reykja og gerði svo alvöru úr því nokkrum vikum síðar, þann 6. ágúst og hefi ekki reykt síðan. Þessar tvær vikur sem hún var á Íslandi var góður tími. Það var farið um allt suðurland, skoðaðar menjar eftir náttúruhamfarirnar dagana á undan og annað það merkilegt sem hægt að komast yfir á stuttum tíma.
Rúmlega tveimur árum síðar kom Linda frænka aftur til Íslands. Þá var hún að verðlauna sjálfa sig, því með þrautseigjunni hafði henni tekist að ná af sér 84 kg af líkamsfitu á tveimur árum, var staðin upp úr hjólastólnum og búin að leggja súrefniskútnum um sinn, en reykti enn. Það var haldið áfram að skoða land og þjóð, dáðst að norðurljósunum og farin ferð norður í land þar sem Linda kynntist íslenskum vetri í fyrsta og eina sinn. Við komum þar að sem tveir bílar höfðu fokið af veginum án þess að slys yrðu á fólki og lentum í minniháttar aðstoð við fólkið í bílunum. Þá var nú Linda frænka í essinu sínu og ég held að ég hafi aldrei séð hana ljóma jafn innilega eins og eftir þetta ævintýri.
Eftir þessa Íslandsför Lindu héldum við áfram góðu sambandi þótt aldrei léti ég verða af því að fara vestur í heimsókn, allt þar til að hún hætti skyndilega öllum tengslum við Ísland fyrir tæpu ári síðan án þess að nokkur skýring væri gefin. Mig grunaði reyndar að þetta væri í tengslum við sjúkdóm hennar því lungnaþemban var farin að ágerast að nýju, en komst síðar að því að tölvunni hennar hefði verið stolið þar sem hún var á leiðinni heim úr viðgerð.
Ég hefi örugglega sagt sögurnar af Lindu margsinnis áður, en í gærmorgun bárust mér þær sorglegu fréttir að Linda hefði kvatt þetta jarðlíf 2. febrúar síðastliðinn og hefur útförin þegar farið fram í heimaborg hennar, Las Vegas í Bandaríkjunum.
Fjölskylda hennar og aðrir ættingjar, hvort heldur er á Íslandi eða Bandaríkjunum, eiga samúð mína alla.
miðvikudagur, febrúar 15, 2006
15. febrúar 2006 - Linda frænka
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:03
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli