Það er sem að bera í bakkafullan lækinn að fjalla nú um myndirnar af Múhameð spámanni sem enginn veit lengur hvernig leit út, enda var hann uppi á sitt besta fyrir hartnær 14 öldum síðan og hafa myndir af honum ekki verið leyfðar í ríkjum múslíma síðan þá.
Múslímar og fleiri líta á myndir af spámönnum sínum sem skurðgoðadýrkun og ekki við hæfi. Þegar að auki er verið að hæðast að trúnni með skopteikningum af spámanninum og hann sýndur við óviðurkvæmilega þætti sem brjóta í bága við kennisetningarnar, er eðlilegt að fylgjendum hans sárni.
Biskup Íslands sárnaði þegar Spaugstofan gerði góðlátlegt grín að Jesús Kristi og kærði þá félaga fyrir guðlast. Sömu útreið fékk Úlfar Þormóðsson, en öfugt við Spaugstofuna var hann dæmdur af verkum sínu. Þó er kristni sú sem Jesús Kr. Jósefsson boðaði, öllu frjálslyndari en sú sem Múhameð boðaði. Hinsvegar hafa fylgjendur Jesús oft farið offari í túlkun á kristnidómnum. Ef íslenskir blaðamenn hefðu farið jafn frjálslega með kenningar kristninnar og danskir blaðamenn fóru með kenningar Múhameðs, hefði biskup vafalaust kært þá fyrir guðlast og krafist þyngstu refsingar sbr. kæruna gegn Úlfari Þormóðssyni.
Frelsi í fjölmiðlun býður ekki að blaðamönnum sé frjálst að gera hvað sem þeim sýnist. Þeir verða að bera ábyrgð á því efni sem þeir setja fram og skammast sín ef þeir fara yfir strikið og taka afleiðingum gerða sinna. Blaðamenn Jyllandsposten fóru yfir strikið, en í stað þess að skammast sín og biðja múslíma afsökunar á frumhlaupi sínu, óðu þeir áfram eins og naut í flagi og þrættu fyrir að hafa gert neitt rangt. Forsætisráðherra Danmerkur bað ekki heldur afsökunar fyrir hönd dönsku þjóðarinnar. Það er eðlilegt. Hann er stór kall og er í stríði við múslímskar þjóðir og vill komast yfir hluta olíugróðans. Slíkur maður er of stór til að kunna að skammast sín, þó ekki sé nema fyrir hönd sinnar litlu þjóðar.
Af hverju eru þessir menn svona heimskir að kunna ekki að skammast sín, heldur halda áfram að þráast við eins og asnar? Þessi bjáni, Anders Fogh Rasmussen, átti einfaldlega að biðja múslímskar þjóðir afsökunar á frumhlaupi þegna sinna og vona að svona komi ekki fyrir aftur, síðan að óska þess við Jyllandsposten að þeir gæti hófsemi og stillingar í myndbirtingum sem gætu skaðað hagsmuni Danmerkur. En hann reyndist of þrár til að gera neitt af viti.
Ef ég hitti fyrir óánægðan viðskiptavin Orkuveitunnar sem telur Orkuveituna hafa svikist um afhendingu vatns eða rafmagns af ítrustu gæðum, þá ber mér skylda til að biðja þann hinn sama afsökunar á þessu og vísa viðskiptavininum á þann aðila innan Orkuveitunnar sem getur leyst úr máli hans. Viðskiptavininum kemur það svo ekkert við hvort ég sé sek af ætluðum vörusvikum eður ei. Hann á rétt á sinni vöru, vatni og rafmagni, en mér ber sem óbreyttum starfsmanni, að viðurkenna réttmætar kröfur hans. Anders Fogh Rasmussen ber öllu ríkari ábyrgð og á að biðja opinberlega afsökunar sem eitt helsta höfuð dönsku þjóðarinnar.
Það kemur svo málinu ekkert við hvert álit, ég eða Anders Fogh Rasmussen, höfum á íslamstrú.
þriðjudagur, febrúar 07, 2006
8. febrúar 2006 - Af Múhameð spámanni
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:39
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli