Enn er ekki hafin rannsókn á öllum þeim mistökum og flausturshætti sem einkenndi björgun tveggja manna úr sprungu á Hofsjökli á laugardag, en ýmislegt hefur þó lekið út. Landhelgisgæslan var óstarfhæf eins og áður hefur komið fram, fjarskiptasamband í molum, erfiðleikar við að koma tækjum upp á jökulinn.
Í sjónvarpsfréttum hefur komið fram að ýmislegt fór úrskeiðis vegna þess að Landhelgisgæslan er í fjársvelti. Það er hinsvegar til nóg af peningum til að senda stríðsóða stráklinga í byssuleiki austur til Afganistan og til að stofna til allskyns stríðsleikja á borð við leyniþjónustu og öryggislögreglu. Í viðtali við sjónvarpið hélt Georg Kristinn Lárusson því fram að þrjár þyrlur væri idealstærð björgunarþjónustu af stærð Landhelgisgæslunnar, þar af ein þyrla í eftirliti eða skoðun. Herinn á Miðnesheiði telur að þeirra lágmark sé fimm þyrlur, fjórar tilbúnar til verkefna og sú fimmta í skoðun. Ég get ekki séð að heil þjóð þurfi minna en einn herflokkur fullfrískra ungmenna.
Er ekki kominn tími til að einhverjir axli ábyrgð á þeim mistökum sem gerð hafa verið, hvort heldur þau voru framin af ásetningi með fjárvelti Landhelgisgæslunnar eður ei?
-----oOo-----
Du gamla du fria er sungið hástöfum í Svíþjóð þessa dagana. Það er eðlilegt því strákarnir okkar unnu gull í íshokki og stelpurnar unnu gull í krullu auk fimm gullverðlauna að auki. Ekki veit ég hversu mörg verðlaun Svíar unnu alls á þessum ólympíuleikum auk þessara sjö gullverðlauna.
Þjóðin sem kennd er við ís vann engin verðlaun fremur venju og hafa aldrei gert á vetrarólympíuleikum. Það breytir engu hvort miðað er við höfðatölu eða öðrum reiknikúnstum beitt. Árangurinn verður áfram jafnlélegur og áður. Hið eina sem Ísland virðist hafa umfram aðrar þjóðir í íþróttum er montið yfir eigin getu sem engin er.
Meistarinn á járnsmíðaverkstæðinu þar sem ég tók smiðjutímann sagði einhverju sinni að sá sem ekki kann að sópa verður aldrei meistari. Sendum því íslenska íþróttamenn á námskeið í krullu, alla sem einn og sjáum hvort ekki rætist úr þeim.
mánudagur, febrúar 27, 2006
27. febrúar 2006 - Að bera ábyrgð
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli