miðvikudagur, febrúar 01, 2006

1. febrúar 2006 - Lýðræðissjónarmið?

Fyrir nokkru fóru fram kosningar í Palestínu. Þegar ljóst var að Hamas samtökin höfðu unnið kosningarnar með talsverðum meirihluta, ráku ríkisstjórnir nokkurra landa upp ramakveim og byrjuðu samstundis að bera fram hótanir gegn þeim sem sigruðu kosningarnar.

Ég er ekkert sérstaklega hrifin af þessum nýju valdhöfum Palestínu. Ég er ekki hrifin af þessari ögrandi harðneskjulegu stefnu Hamas gagnvart Ísrael, en um leið geri ég mér fulla grein fyrir samtryggingarkerfi Palestínuþjóðarinnar sem Hamas hefur haldið gangandi á sama tíma og Fatah hafa verið uppteknir af að viðhalda öryggishagsmunum yfirstéttar Palestínu Mér ber samt að virða úrslit þessara kosninga, enda var slíkur fjöldi vestrænna embættismanna viðstaddur á kjörstöðum, að kosningasvindl hefði verið illframkvæmanlegt.

Ég velti fyrir mér hverskonar lýðræði það er sem vesturveldin sjá fyrir sér í Palestínu ef flokkurinn sem vinnur fyrir fólkið í landinu má ekki vinna kosningar? Er það í anda bandarískra stjórnvalda og þeirra lýðræðishugmynda sem hafa nú hafið linnulausan áróður gegn Hamas, rétt eins og þeir héldu uppi linnulausum áróðri gegn Salvadore Allende um þriggja ára skeið uns þeir studdu valdagráðugan fjöldamorðingja til valda, mann sem nú er fyrirlitinn og hataður af stórum hluta chileönsku þjóðarinnar? Þetta er kannski rétta aðferðin við næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum, að neita að viðurkenna þann sem vinnur forsetakosningar þar í landi ef sá hinn sami er öfgafullur hægrimaður af sama meiði og George Dobbljú Bush.

Ég held að vesturveldin verði að gefa Hamas tækifæri, í stað þess að hefja hótanir í garð þeirra um leið og ljóst var að sigurinn var þeirra. Ég virði meira að segja úrslitin í prófkjöri Framsóknarflokksins þótt Björn Ingi Hrafnsson hafi unnið og ónefndur Gestur hafi reynt að smala sínu fólki til að greiða atkvæði utankjörstaðar, enda er ég ekki í Flokknum, ekki frekar en stuðningshópur Gests sem kaus utankjörstaðar.

----o----

Á morgun kemur síðasti jólasveinninn til byggða, sjálfur Kortaklippir.


0 ummæli:







Skrifa ummæli