Eftirfarandi málgrein tilskipunar um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum, er að finna í lagasafni hins íslenska lýðveldis:
3) Nú er barn, sem ferma á, krypplingur, svo að það á bágt með að koma í kirkju til fermingar, eða það getur það eigi að hættulausu vegna stöðugra veikinda eða það hefir svo stórkostleg líkamslýti, að koma þess og yfirheyrsla í kirkjunni gæti valdið hneyksli; og skal þá biskupi heimilt að leyfa, að það sé fermt heima í votta viðurvist.
Frá 23. mars 1827.
Lagasafn 2003, bls 636
Þegar orð biskups frá því um síðustu áramót eru skoðuð, þá mælist hann til þess að við hinkrum aðeins og skoðum hvort eigi að leyfa kirkjulega blessun samkynhneigðra í hjónaband. Þegar ofangreind málsgrein laga um vald biskups er skoðuð og sú augljósa staðreynd að biskup gerir engar athugasemdir við fordómafullt orðalag gegn börnum við lagasetningarvaldið sem honum eru gefin í þessari tilskipun, hvers er þá von frá biskup Íslands gagnvart tveimur heilbrigðum og samkynhneigðum einstaklingum sem vilja ganga saman í hjónaband?
Sú staðreynd að þessi lagagrein skuli enn vera óbreytt í lögum, er hneyksli og lagasetningarvaldinu háðung sem greinilega hefur ekki kynnt sér innihald lögbókar lýðveldisins Íslands. Það er sömuleiðis háðung fyrir biskup Íslands á hverjum tíma að gera ekki ítrustu athugasemdir við slíkt orðalag sem hér er notað.
Ég held að Alþingi og biskup þurfi að sameinast um að taka til í eigin ranni og helst um leið og þeir hafa fallist í faðma og samþykkt lög um hjónavígslu samkynhneigðra.
þriðjudagur, janúar 31, 2006
31. janúar 2006 - Í ranni biskups
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:05
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli