Nú hafa ýmsir sértrúarsöfnuðir samþykkt ályktun þar sem lýst er yfir stuðningi við kaldar kveðjur biskups til samkynhneigðra. Um leið eru þessir hópar að krefjast þess að haldið verði áfram að mismuna fólki eftir kynhegðun þótt slíkt sé brot á 233 gr. hegningarlaganna.
Þetta kemur mér ekkert á óvart. Þessir smásöfnuðir eru margsinnis brotlegir við þessa sömu lagagrein þótt ekki hafi verið látið á það reyna fyrir dómstólum. Að biskup skuli byrja að herma eftir þeim þykir mér öllu verra, því það er andstætt boðum nýja testamentisins sem boða kærleika og fyrirgefningu.
Auk þessara tuttugu trúarhópa skrifa 19 einstaklingar einnig undir þessa ályktun. Þetta eru nokkrir einstaklingar sem hafa sagt sig frá trúfélögum eins og Guðlaugur Laufdal og Kolbrún Jónsdóttir sem voru áður í Krossinum og gamlir afdankaðir prestar og fleiri. Þá þarf ég ekki að efa stuðning Jóns Vals Jenssonar vinar míns við þessa ályktun, en margt í skoðunum hans brýtur gróflega í bága við almennar siðferðisreglur kristninnar eins og stuðningur hans við dauðarefsingar sem einungis eru enn við lýði í verstu afturhaldsríkjum.
Verra finnst mér að sjá Halldór Gröndal á listanum þegar haft er í huga að hann átti í baráttu við fordóma samborgara sinna sem margir höfnuðu honum er hann sótti um embætti í Reykjavík, sökum fyrri starfa hans sem veitingamaður og barþjónn. Verst þykir mér þó að sjá Loft Reimar Gissurarson á þessum lista. Ég hefi ávallt litið upp til hans og hefi ekki séð annað til hans en sem bendir til eindregins jafnréttissinna.
Ég sé það betur og betur hve Hjörtur Magni Jóhannesson er að berjast við marga drauga í samfélaginu, þvílíkt þrekvirki hann er að vinna ásamt örfáum öðrum prestum á borð við hjónin Bjarna Karlsson og Jónu Hrönn Bolladóttur.
Ályktunin
laugardagur, janúar 21, 2006
21. janúar 2006 - Ályktunin
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli