Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður lenti í alvarlegu bílslysi í fyrrinótt og liggur nú illa slasaður á sjúkrahúsi. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var þess getið að bæði Guðjón Arnar Kristjánsson og Kristján L. Möller hefðu sloppið með skrekkinn er þeir lentu í svipuðum atvikum og Steingrímur. Þá hefur heyrst að tveir alþingismenn hafi misst ökuskírteinið á kjörtímabilinu sökum ölvunar undir stýri.
Þegar ég heyri slíkar fréttir af alþingismönnum, þá fer ég að velta fyrir mér hvort alþingismenn séu yfirleitt hæfir til að aka bifreiðum? Allavega myndi ég hugsa mig tvisvar um áður en ég myndi lána alþingismanni bílinn minn.
Með þessum orðum óska ég Steingrími fljóts og góðs bata.
---o---
Konur í Sjálfstæðisflokknum hafa komið saman og ályktað um framboðsmál vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í framboðsmálum til bæjarstjórnar í Garðabæ þar sem fjórir efstu frambjóðendur flokksins eru karlmenn. Sýnt var frá þessum fundi í sjónvarpinu og sá ég ekki betur en að ein fundarkvenna hafi verið Helga Guðrún Jónasdóttir sem látin var víkja af lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar til að rýma sæti fyrir Bjarna Benediktssyni sem taldist vera vonarprins flokksins í Suðvesturkjördæmi. Af hverju? Ég er viss um að Helga hefði sinnt þingmennsku ekki síður en Bjarni og jafnvel betur, enda löngu þekkt fyrir skeleggan baráttuanda og skemmtilega framkomu.
---o---
Eins og allir vita sem lesið hafa pistla mína, er ég áköf stuðningsmanneskja virkjanaframkvæmda á hálendinu og uppbyggingu stóriðnaðar. Á Alþingi í gær heyrði ég í öðrum virkjanasinna, sjálfri prestsmaddömunni á Mosfelli sem ekki einungis vill útrýma rjúpunni, heldur og virkja allt sem hægt er að virkja, en síðast en ekki síst var hún fylgjandi innrás Bandaríkjanna og leppríkja þeirra í Írak.
Er manneskjan hæf í jafn mikilvægt embætti sem að stjórna umhverfismálum?
---o---
Loks fær elsti bróðir minn samúðaróskir með 65 ára afmælið.
miðvikudagur, janúar 18, 2006
18. janúar 2006 - Af alþingismönnum ofl.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 06:58
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli