föstudagur, janúar 27, 2006

27. janúar 2006 - Um Palestínu

Ég hefi verið hálfslöpp í kvöld og ekki getað úthugsað neinn sæmilegan pistil til að setja hér inn. Þó hefur ein frétt borist mér sem mér þykir merkileg.

Það voru kosningar í Palestínu um daginn þar sem Hamas samtökin unnu afgerandi sigur þrátt fyrir beinar og óbeinar tilraunir Bandaríkjanna og Ísraels til að hafa áhrif á úrslit kosninganna. Meðal annars greiddu Bandaríkin Fatah samtökunum umtalsverðar upphæðir til kosningabaráttunnar og Ísrael gerði allt sem í þeirra valdi stóð til að hindra að Hamas gætu kynnt mál sín og frambjóðendur í Austur-Jerúsalem. Slík afskiptasemi af kosningum annars staðar hefði einhvern tímann þótt hið versta hneyksli, en nú brá svo við að fjölmiðlar á vesturlöndum sáu ekkert athugavert við þennan utanaðkomandi stuðning við Fatah. Ef fjölmiðlarnir hafa gert athugasemdir við þennan stuðning, hefur það ekki borist mér til heyrna. Til að bæta gráu ofan á svart hafa fulltrúar ríkisstjórnar Bandaríkjanna verið með stór orð gegn Hamas í fjölmiðlum eftir kosningarnar og lagt sitt á vogarskálarnar til að tryggja viðgang hatursins á þessum viðkvæmu tímum.

Fólkið í Palestínu hefur greinilega séð þetta betur en vestrænir fjölmiðlar og ákveðið að flykkja sér um Hamas, frekar en að styðja fulltrúa Bandaríkjanna og Ísraels. Með þessu ætla ég ekki að halda því fram að Abbas séu neinir sérstakir vinir Bandaríkjanna og Ísraels, en slík íhlutun í kosningar af þessu tagi hlýtur að vera alvarlega varhugaverð. Þá er og ljóst að Hamas hafa unnið mikið starf við félagsaðstoð í Palestínu og verið rödd fólksins á sama tíma og Fatah hafa iðulega komið fram við palestínsku þjóðina sem fulltrúar yfirstéttarinnar og hinna ógnandi valdhafa.

Ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega um þessi úrslit né leggja fram sérstakt álit þessum tvennum stóru pólitísku samtökum í Palestínu, enda lítt kunnug málum þarna suðurfrá, en þessi úrslit koma mér allavega ekkert á óvart. Ég hefði sennilega orðið hissa ef þau hefðu farið á annan veg.


0 ummæli:







Skrifa ummæli