þriðjudagur, janúar 17, 2006

17. janúar 2006 - Vetrarfærð

Á sunnudag var ég að fylgjast með bílum úti á bílastæði á milli húsa hér í Árbænum og hafði gaman af. Ég sá eldri hjón fara út í nýlega smábílinn sinn og reyna að bakka úr stæði. Það var ekki mikill snjór á bílastæðunum, en hann var nokkuð laus í sér og gat valdið erfiðleikum fyrir smábíla á sumardekkjum og klaufa. Þetta gekk fremur illa því maðurinn steig bensíngjöfina í botn og svo spólaði hann og spólaði. Eftir hátt í hálftíma spól hafði honum tekist að mjaka bílnum aftur um eina og hálfa bíllengd, nóg til að geta beygt og spólað af stað með miklum tilþrifum. Mér datt ekki til hugar að fara út til að hjálpa. Ljóst var að maðurinn kunni ekki að aka bíl í vetrarfærð og bíllinn vanbúinn til vetraraksturs í tiltölulega litlum snjó og betra væri fyrir slíkt fólk að nýta sér þjónustu almenningsfarartækja.

Mitt ofan í fréttir af fjöldaárekstrum og árekstrahrinum, berast fréttir af tillögum starfshóps um vandamál tengd nagladekkjum í Reykjavík. Þar er reynt að fara pyngjuleiðina að fólki og láta greiða gjald fyrir notkun nagladekkja. Hrædd er ég um að þá fjölgi talsvert klaufum í umferðinni á borð við þann sem var að spóla á stæðinu fyrir framan húsið heima hjá mér. Væri kannski betra að banna notkun smábíla með framhjóladrifi og bíla með afturhjóladrifi?

Þegar ég gekk til vinnu á mánudagsmorguninn, leið mér óskaplega vel að þurfa ekki að moka snjó af fjórhjóladrifna vinstrigræna bílnum mínum um leið og ég horfði vorkunnaraugum á einn nágrannann spólandi á bílastæðinu. Mér datt ekki til hugar að bjóða honum aðstoð.

Ég vorkenni nágrönnum mínum að eiga svona nágranna eins og mig.

-----oOo-----

Svo er auðvitað sjálfsagt að óska Davíð til hamingju með 58 ára afmælið sitt.


0 ummæli:







Skrifa ummæli