miðvikudagur, janúar 11, 2006

11. janúar 2006 - Hvenær drepur maður mann ...

...og hvenær drepur maður ekki mann? Það er full ástæða til að spyrja sig þessarar spurningar eftir síðustu “uppljóstranir” DV, sem leiddu til þess að maður á sextugsaldri svipti sig lífi.

Hvað eftir annað hafa ritstjórar DV gengið lengra í ærumeiðandi ummælum sínum um menn og málefni en þekkist annarsstaðar. Undanfarin misseri hafa hrúgast upp kærur á hendur ritstjórum blaðsins, þeim Jónasi Kristjánssyni, Mikael Torfasyni og Illuga Jökulssyni fyrrverandi ritstjóra fyrir ærumeiðingar og mannorðsmorð. Nú er ekki lengur um að það ræða að svipta fólk ærunni, heldur hafa orð þeirra nú kostað líf fórnarlambs ritstjóranna, kannski fleiri en eitt. Ekki veit ég.

Um sekt eða sakleysi mannsins sem svipti sig lífi eftir fréttaflutning DV er óþarfi að fjölyrða. Með fréttaflutningi sínum hefur ritstjórum DV ekki aðeins tekist að svipta manninn helgasta rétti sérhverrar manneskju, sjálfu lífinu, heldur hafa þeir einnig hindrað framgang réttvísinnar í rannsókn á hendur umræddum manni fyrir meint kynferðisafbrot. Þá þekkti ég manninn ekki persónulega og veit fátt um hagi hans annað en að hann var talinn frábær og skemmtilegur rithöfundur samanber bækur sem komið hafa út á undanförnum árum og skráðar af honum.

Jónas Kristjánsson segist ekki vera beinn málsaðili að þessu máli í viðtali. Það er rangt. Hann er besta falli samsekur um að stuðla að mannsláti, í versta falli jafnsekur um manndráp og sá sem fremur verknaðinn. Ég vona það svo sannarlega að fjölskylda mannsins sem lést eftir fréttaflutning DV leggi fram kæru á hendur ritstjórum DV ásamt og þeim blaðamönnum sem unnu að greininni svo að þeir hljóti réttláta refsingu fyrir glæpi sína.

Um leið skora ég á eigendur DV að hlutast til þess þegar í stað að ritstjórum DV, þeim Jónasi Kristjánssyni og Mikael Torfasyni ásamt yfirritstjóranum Gunnari Smára Egilssyni, verði þegar í stað vikið úr störfum sínum á meðan rannsókn fer fram í refsimáli á hendur þeim.

Með þessum orðum vil ég votta ástvinum hins látna samúð mína


0 ummæli:







Skrifa ummæli