Skelfing er ég búin að fá mikinn leið á þessum umhleypingum. Annan hvern dag þarf að byrja á að brjóta klakann af bílrúðunum áður en ekið er af stað, en hinn daginn er slíkt úrhelli að vart er stætt á götunum í roki og rigningu.
Þetta byrjaði svona á aðfangadag og hefur verið stöðugt síðan þá. Ýmist snjóar eða rignir og erfitt að henda reiður á veðurspána því það skiptir svo oft um veður. Ég er búin að fá hundleið á þessu því einasta skiptið sem ég hefi komist út í labbitúr til að ná af mér jólasteikinni eftir jól, var þurrt þegar ég lagði að heiman, en kom holdvot heim klukkutíma síðar
----o----
Í dag verður árlegt nýársboð hjá Don Alfredo, væntanlega hið síðasta áður en hann yfirgefur okkur og heldur á ný mið. Mér líst mjög illa á þessi skipti og hefði viljað hafa hann áfram í starfi hjá Orkuveitunni. Þá er ekki til að bæta úr að ég er ekkert yfir mig hrifin af þessu hrikalega bákni sem á að reisa við Hringbrautina og kallast “hátæknisjúkrahús”.
Á Íslandi eru núna þrjú sjúkrahús sem má kalla hátæknisjúkrahús, Landspítalinn við Hringbraut, Landsspítalinn/Borgarspítalinn í Fossvogi og loks Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Það mætti ætla að það væri nóg. Það er ekki til að bæta úr að vart er úthlutað nægu fjármagni til að reka núverandi heilbrigðisþjónustu og þá að byggja risastóran monsterspítala fyrir milljón manns þótt hræðurnar á Íslandi séu aðeins 300.000. Að auki er staðarvalið hið vitlausasta sem hægt er að hugsa sér, nánast í útjaðri Reykjavíkur með stöðugri þróun byggðar til austurs og suðurs.
Nenni vart að æsa mig að sinni og ekkert að frétta af mér.
laugardagur, janúar 07, 2006
7. janúar 2006 - Veðrið ofl.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli