laugardagur, janúar 28, 2006

28. janúar 2006 - Af svifryki ofl.

Af einhverjum ástæðum eru allar gangstéttir borgarinnar þaktar sandi þessa dagana. Þessum sandi var dreift þarna á meðan snjór var yfir öllu til að hindra að gamalt fólk og lasburða rynni á rassinn í hálkunni og bryti bein og tognaði. Þetta er hið besta mál.

Ef ég sóða út einhversstaðar, t.d. sanda tröppurnar við blokkina þar sem ég bý, þá þarf ég auðvitað að sópa sandinum saman þegar hlánar og snjór og ís hverfa af gangstéttinni. Ég er hinsvegar svo löt við að sanda, að ég hefi engar áhyggjur af sandburði á minni gangstétt. Sama finnst mér að borgaryfirvöld þurfi að gera. Þeir sönduðu gangstéttirnar og björguðu mörgu gamalmenninu frá því að hrasa og jafnvel detta í hálkunni og er það vel. Mér finnst sjálfsagt að þeir sópi líka upp eftir sig.

Þessa dagana er mikill áróður gegn nagladekkjum á vegum borgaryfirvalda. Brátt mun sandurinn sem dreift var á gangstéttirnar, fjúka út á akbrautirnar og þyrlast upp í loftið undan bílunum og verða að svifryki yfir götunum. Munu þá andstæðingar nagladekkjanna benda á svifrykið og segja: Sjáið þið, þetta svifryk er nagladekkjunum að kenna. Bönnum nagladekkin!

Ég ek um á vinstrigrænum Subaru og þarf ekki nagladekk í innanbæjarumferðinni. Sumir þurfa á nagladekkjum að halda og eiga að nota nagladekk. Látum þá njóta vafans og látum borgina sópa gangstéttir og götur áður en svifrykið verður að vandamáli.

----o----

Eins og allir vita sem lesa bloggið mitt að staðaldri, þá hefi ég rekið Björn Inga frambjóðanda úr ætt við mig. Ég hefi hinsvegar unnið mikið og vel með ættingjum Önnu Kristinsdóttur, m.a. í störfum og ættfræði og hefi því aðeins fylgst með henni í borgarmálunum. Af gefnu tilefni hvet ég því þessa fáu Framsóknarmenn sem enn nenna að lesa bloggið mitt, til að sýna skynsemi með því að veita henni brautargengi innan Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar í vor. Það gera þeir með því að kjósa hana í prófkjöri Framsóknarflokksins um helgina.


0 ummæli:







Skrifa ummæli