Það var í febrúar 1997 að starfsfólk Hitaveitu Reykjavíkur hélt í veisluferð með langferðabifreiðum frá Hitaveitunni við Grensásveg í Reykjavík og eftir að hafa smalað nokkrum væntanlegum veislugestum í bílana í Árbæ og Mosfellsbæ, var haldið áleiðis í Hvalfjörðinn. Fólk var ekki búið til veislu í sparifatnaði, en flestir voru með kuldagallann með sér eða þá einhver önnur hlý föt og ekki var veðrið hið ákjósanlegasta, strekkingsvindur og slydda. Það var haldið sem leið lá Kjósina uns komið var til Hvammsvíkur. Þar var okkur sleppt úr bílunum við söluskálann sem var notaður til sölu veiðileyfa, golfiðkana og síðar kajakróðra á sumrin.
Um það bil helmingur þorrablótsgesta hélt í gönguferð í átt að Staupasteini. Þar hafði skemmtinefndin komið fyrir veitingum til að tryggja að fólk yrði ekki þurrbrjósta í gönguferðinni, en fólkið hafði þó ekki farið langt þegar skall á kafaldshríð. Þegar hópurinn sem beið í söluskálanum var farinn að óttast um afdrif göngugarpanna, var langferðabifreið send af stað til að leita þeirra og náði að finna allan hópinn nokkuð hrakinn við Staupastein og keyra með hann til baka til Hvammsvíkur.
Síðan hófst hið eiginlega þorrablót. Það var haldið í hlöðinni við gamla bæinn í Hvammsvík. Þar var ekkert rafmagn, engin kynding og ekkert salerni, hinsvegar nóg til af veigum og þorramat. Það var sungið saman og dansað á malarsléttuðu moldargólfinu, í bjarma kertaljósa sem hafði verið haganlega fyrirkomið í vegghleðslum hlöðunnar, við undirleik harmonikuleikara. Flest eða öll skemmtiatriðin voru flutt af fingrum fram af veislugestunum sjálfum sem þurftu að vera í kuldagöllunum í kaldri hlöðunni meðan óveðrið geysaði utandyra og mátti stórpassa sig á formanni starfsmannafélagsins er hann sveiflaði litlu heimagerðu ræðupúltinu eins og hljómsveitarpriki við fjöldasönginn. Tveir Svíar sem voru að sinna prófverkefni hjá Hitaveitunni skiluðu sínum frumsömdu atriðum svo eftirminnilegt var og áttu sinn þátt í að gera kvöldið ógleymanlegt.
Þegar leið á kvöldið fór salernisskortur að gera vart við sig. Ekki var til að bæta úr, að á milli 100 og 200 metrar voru frá hlöðunni og yfir í söluskálann þar sem tvö eða þrjú salerni voru. Loks var gripið til þess ráðs að girða af bása í aflögðu fjósinu svo fólk gæti gert þarfir sínar án þess að eiga á hættu að verða úti í stórhríðinni sem geysaði utandyra.
Komið var langt fram á nóttina þegar fólki fannst tími til kominn til að halda heim á leið. Einhvernveginn tókst að smala öllum veislugestum upp í langferðabílana og halda til Reykjavíkur og gekk sú ferð ágætlega þrátt fyrir slæma færð á leiðinni. Má segja að sjaldan hafi eitt þorrablót verið jafnvel heppnað og þrátt fyrir talsverða ölvun, þurfti enginn veislugesta að vera með slæma samvisku daginn eftir.
Ári síðar var leikurinn endurtekinn. Það árið var byrjað með fordrykk við borholu 13 í dælustöðinni á Reykjum í Mosfellsbæ áður en haldið var til Hvammsvíkur. Þá var skaplegt veður allt þorrablótið, olíuknúinn masterblásari notaður til að halda yl á hlöðunni og Svíarnir löngu búnir að ljúka sínu verkfræðiverkefni og farnir heim. Þótt seinna þorrablótið 1998 hafi lent í öðru sæti yfir skemmtilegustu þorrablót sem ég hefi tekið þátt í, þá vantaði einhvernveginn þann skemmtilega neista sem skapaðist í óveðrinu, kuldanum og hrakningunum árið áður. Það var jafnframt síðasta þorrablótið sem litla Hitaveitan gat haldið þorrablót ein sér því áramótin á eftir voru veiturnar sameinaðar og síðan hefur ekki verið mögulegt að halda þorrablót í sama anda og þau sem voru haldin 1997 og 1998 sökum mikils fjölda starfsmanna.
Ég minnist þess að hafa einu sinni tekið þátt í þorrablóti hjá Orkuveitunni eftir þetta. Það var haldið í Versölum við Hallveigarstíg í Reykjavík og var óskaplega stillt og pent með hljómsveit, borðalögðum þjónum og fólk í sínu fínasta pússi. Þegar veislugestir fóru að dansa línudans í siffonkjólum og jakkafötum, labbaði ég út.
sunnudagur, janúar 22, 2006
22. janúar 2006 - Þorrablót
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli