fimmtudagur, janúar 19, 2006

20. janúar 2006 - Af sægreifum

Eins og gefur að skilja á skrifum mínum, á ég bágt með að hætta að vorkenna Steingrími J. Sigfússyni eftir slysið sem hann lenti í á sunnudagskvöldið. Það hefur sínar eðlilegu skýringar því hann hefur gefið sig út fyrir að vera heilsteyptur og málefnalegur stjórnmálamaður.

Steingrímur hefur oft gefið sig út fyrir að aka á milli kjósenda sinna á ævafornum Volvó 144 frá því snemma á áttunda áratugnum, ef ég man rétt, grænum að lit. Slíkur bíll þykir ekkert sérstaklega umhverfisvænn, enda framleiddur löngu fyrir daga Vinstri-grænna. Á móti þykir bíllinn einstakt dæmi um góða nýtni Steingríms á fjármunum og nýtni bifreiðar hvar sem hann fer akandi á gamla hræinu.

En upp komast svik um síðir. Síðastliðið sunnudagskvöld ók alþingismaðurinn útaf og stórskemmdi eða eyðilagði bílinn sinn. Af myndum að dæma var græni Volvóinn orðinn grár og kominn með jeppalag. Þóttust nú sumir þekkja sægreifann, enda bíllinn sömu gerðar og Samherjafrændur aka á sem og Steini stórkapteinn á Alla ríka SU-11. Bifreiðin mun heita Toyota LandCruiser 100 og kostar einn slíkur, nýr og óbreyttur, litlar sjö milljónir króna. Það er eins gott að Steingrímur á vænan hlutabréfasjóð í Hraðfrystihúsi Þórshafnar auk nánasarlegs þingfararkaupsins til að geta rekið svona sægreifajeppa.

---

Hugur minn nú er til Ísafjarðar þar sem ung stúlka lést í hörmulegu slysi í gær.

---

Enn spyr ég hvort einhver viti hvenær eigi að sýna kvikmyndina Transamerica á Íslandi? Ég spurði sömu spurningar í gær, en þessir fjórir lesendur bloggsins míns vissu ekki svarið. Kannski læðist einhver inn í dag sem veit svarið!


0 ummæli:







Skrifa ummæli