Fjarskyldur ættingi minn lagði fram hugmyndir sínar að öryggislögreglu eða leyniþjónustu á Íslandi, eitthvað í skyldleika við KGB, CIA , MI5 eða þá SÄPO á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun. Sjálf get ég ekki séð mikla ástæðu til að koma á slíkum leynilögregluher sem á væntanlega að starfa með lagaboði en samt í felum.
Stærsta hættan sem steðjar að íslensku þjóðinni er ekki skæruliðaárás eða bylting, heldur þátttaka Íslands í stríðinu í Írak og sleikjuháttur ríkisstjórnarinnar gagnvart bandarískum yfirvöldum. Því er raunverulega nóg að losa þjóðina við hættuna sem stafar af slíku frekar en að espa upp hernaðarhyggju landans, t.d. með því að losa þjóðina við fjórar einskis nýtar orrustuþotur af landinu og taka Keflavíkurflugvöll alfarið undir þarfir borgaralegrar starfsemi.
Ég get því miður ekki losað mig við umræddan ættingja úr ættinni á sama hátt og ég losaði mig við nafna hans sem er aðstoðarmaður einhvers svokallaðs forsætisráðherra því ættareinkennin leyna sér ekki. Bæði erum við grettin og vindþurrkuð, jafnt að innan sem utan af margra alda roki sem leggur meðfram Esjunni, en slíkur ljótleiki einkennir fólk sem er ættað af Kjalarnesinu.
----oOo----
Það er ekki mikið að frétta af mér þessa dagana. Það hefur verið rólegt í vinnu og ekkert spennandi að ske í kringum mig. Rétt eins og allt annað er tíðindalítið, var ég á öryggisnefndarfundi í gærmorgun þar sem uppkast að slysaskýrslu síðasta árs var yfirfarið. Samkvæmt slysaskýrslunni höfðu sextán slys átt sér stað síðasta ár á þessum vinnustað með samtals 560 starfsmenn, flest minniháttar með vinnutap í örfáa daga, tognun, fingurbrot eða flís í auga. Fyrir bragðið fór mikill tími í að ræða eitt alvarlegt slys þar sem verktaki (ekki starfsmaður) varð fyrir bíl og slasaðist illa.
Því miður sér öryggisnefndin ekki um öryggismál íslenska landsliðsins í handbolta. Þar voru fjögur slys á tuttugu manna hópi á einni viku, heilahristingur, rifbeinsbrot, axlarmeiðsli og kjálkabrot. Þá hefðum við orðið að gera ráðstafanir í samræmi við hættumatið á mannskapnum og miðað við fengna reynslu. Leikmenn hefðu að sjálfsögðu allir fengið hjálma og uppháa öryggisskó, andlitshlífar, axlarhlífar, legghlífar og punghlífar. Þá hefðu þeir fengið betri búninga með endurskinsborðum og vettlinga við hæfi.
Ég er sannfærð um að með slíkum ráðstöfunum og kröfum um notkun þessa öryggisbúnaðar, mætti koma í veg fyrir flest eða öll þau meiðsl sem hafa verið að hrjá íslenska landsliðið. Það er svo önnur saga hvort þeim tækist að vinna leik í slíkum búningum.
laugardagur, febrúar 04, 2006
4. febrúar 2006 - Af öryggismálum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli