fimmtudagur, febrúar 16, 2006

16. febrúar 2006 - Óheppinn nágranni

Nágrannar mínir í næsta húsi voru að skipta um bíl um daginn. Nýi bíllinn var nýlegur stationbíll, en þau höfðu áður verið á eldri sjálfskiptum bíl.

Á þriðjudagsmorguninn var kalt í veðri, bílrúður hélaðar og rúðuskafan mikilvægari en oft áður. Nágranni minn í næsta húsi var að halda að heiman, teygði sig inn í bílinn eftir rúðusköfunni og gangsetti bílinn í leiðinni án þess að setjast inn fyrst. Því miður var bíllinn ekki sjálfskiptur eins og gamli bíllinn og því fór sem fór. Bíllinn fór í gang, hoppaði mannlaus yfir kantinn fyrir framan, yfir á bílastæðið á móti þar sem enginn var bíllinn og yfir á næstu bílastæðaröð, lenti utan í einum bíl á því stæði, en fór svo á milli þess bíls og míns vinstrigræna Subaru og yfir enn einn kantinn og beint framan á Subaru nágrannakonu minnar. Eftir stóð eigandinn með rúðusköfuna í hendinni og hefur vafalaust bölvað þessu beinskipta drasli í sand og ösku.

Nágranninn á alla mína samúð, en auk þess var hann heppinn að hafa ekki slasað sig og aðra á þessum óförum sínum. Vonandi að þau fái sér sjálfskiptan bíl næst, en svo þarf frúin á fyrstu hæðinni að fá sér nýjan Subaru.


0 ummæli:







Skrifa ummæli