laugardagur, febrúar 25, 2006

25. febrúar 2006 - Af Vetrarhátíð í Reykjavík

Það var menning sem réði ríkjum hjá mér í gær.

Eftir góðan nætursvefn og tvöfalt gott og heitt bað og allt það sem þarf að gera að degi til, var haldið til byggða í gærkvöldi og mætt á Önnuhátíð í Nýlistasafninu við Laugaveg. Þar var skrafað við fleiri aðrar Önnur um nýstofnaðan félagsskap sem kenndur er við Önnur áður en Árni Bergmann flutti erindi um Önnur í sögulegu samhengi. Í framhaldinu flutti Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur erindi um Brennandi jökla, erindi sem á fullt erindi inn á Önnuhátíð því brennandi jöklar eru hið einasta sem getur toppað Önnur.

Þegar hér var komið sögu var komið fararsnið á mína því að ég var þegar klukkutíma á eftir áætlun og var því tryllt niður í Borgarskjalasafn til hlýða á erindi Guðfinnu Ragnarsdóttur um ættfræði sem því miður var búið þegar ég kom á staðinn. Ég náði samt erindi um varðveislu presónulegra skjala áður en haldið var út í nóttina.

Þegar ég labbaði út frá Borgarskjalasafninu hitti ég fyrir Gylfa Pál Hersi skólafélaga minn úr gaggó og konu hans, (Sigurlaugu?) Þetta var í annað sinn sem ég hitti hann eftir tvítugsaldurinn og hefðu þau skipti mátt verða margfalt fleiri. Vonandi að næstu skipti verði fleiri.

Síðan var rölt á Næstabar. Þegar þangað var komið þekkti ég einungis rekstrarstjórann og barþjóninn (þar komst upp um byttuna mig) Eftir að hafa svipast um eftir einhverjum andlitum sem ég þekkti settist ég hjá bláókunnugu fólki sem sá aumur á mér vesælli. Eftir að hafa setið hjá þeim um stund kom stúlka sem ég vinn með framhjá og ég færði mig um set og að hennar borði. Svo sá ég hjón úr Reykjavík sem ég gjörþekki koma á barinn og aftur færði ég mig um set. Svo hitti ég fyrir sjálfa Vælu Veinólínó í öllu sínu veldi og fannst mér hún öllu laglegri og léttari en fyrirmyndin gefur mér hugmyndir um. Á leiðinni út hitti ég svo heila familíu sem ég þekki og átti ég erfitt með að losna frá Næstabar sökum allra þeirra sem ég þekki og þá sérstaklega þess fólks sem ég ber mikla virðingu fyrir

Semsagt. Vetrarhátíð í Reykjavík var velheppnuð fyrir minn smekk.


0 ummæli:







Skrifa ummæli