föstudagur, febrúar 03, 2006

3. febrúar 2006 - Handbolti?

Það fór fram handboltaleikur í gær. Ég er algjör fanatík á íþróttir og þoli ekki þjóðarrembing, hvort heldur hann er íslenskur eða sænskur. Ég skal þó viðurkenna að ég hefi átt það til að hrífast með.

Ég hreifst með íslenska landsliðinu í handbolta þegar það vann einhverja keppni B-þjóða árið 1989 og ég hoppaði hæð mína af fögnuði þegar Svíþjóð lenti í 3. sæti í heimsmeistarakeppninni í fótbolta árið 1994. Auðvitað fagnaði ég líka frábærum árangri Völu Flosadóttur þegar hún náði sér í ólympíubrons árið 2000. Þar með er fögnuði mínum lokið.

Ég á sænskt vegabréf. Ég hefi notað það óspart þegar Ísland og Svíþjóð eru að keppa í handbolta en heldur ekkert umfram það. Ég hefi haft vegabréfið mitt góða með mér í vinnuna hér á Íslandi til að storka Íslendingum, veifa sænskum passanum framan í sára Íslendingana bölvandi í sand og ösku eftir tap gegn Svíum og sagt: “Strákarnir okkar unnu”.

Nú var ekki um slíkt að ræða. Svíþjóð var ekki með í þessari keppni sem háð var. Ég veit ekki af hverju. Ég þurfti því ekki að taka passann með mér í vinnuna. Ég horfði ekki heldur á neinn leik í þessu móti. Stundum hafði ég kveikt á útvarpinu og heyrði útsendinguna og hve dómararnir voru alltaf á móti Íslendingum.

Ég heyrði í fréttum að einn hefði skaddast á öxl og annar hefði fengið heilahristing. Verra þótti mér að heyra að einn hefði rifbeinsbrotnað og einn kjálkabrotnað. Svo var einhver fjöldi Íslendinga rekinn útaf fyrir óvæginn leik og svo fengu allir hinir minniháttar meiðsli. Hvort voru drengirnir að spila handbolta eða taka átt í fjöldaslagsmálum?

Ég held að Íslendingar væru betri í skák og snóker, en í guðanna bænum, hættið að spila handbolta, eða var þetta handbolti? Af lýsingum að dæma virtist þetta eiga lítið skylt við handbolta, fremur fjöldaslagsmál.


0 ummæli:







Skrifa ummæli