þriðjudagur, febrúar 21, 2006

21. febrúar 2006 - Af Vilhjálmi Þ. og félögum

Það er greinilega kominn kosningaskjálfti í frambjóðendur til borgarstjórnarkosninga í vor. Ekki má birta viðtöl við neinn þeirra sem bera ábyrgð á þeim mistökum sem áttu sér stað varðandi útboðið á lóðum nærri Úlfarsfelli öðruvísi en að það þurfi líka að birta viðtal við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins.

Vesalings maðurinn byrjar allar sínar ræður á að kenna R-listanum um allt það sem farið hefur miður í borginni og flytur sömu ræðuna aftur og aftur. Hann er orðinn verri síbylja en Kató gamli var gagnvart Kartþagó, afsakið ég meinti Guðlaugur Þór Þórðarson var gagnvart Orkuveitunni.. Að auki virðist sem vesalings Vilhjálmur sé einn á framboðslista Sjálfstæðisflokksins því það heyrist ekkert í öllum hinum frambjóðendunum. Ég er hrædd um að karlgreyið verði orðinn útbrunninn löngu fyrir kosningar ef heldur áfram sem horfir.

Það er kannski ágætt að Vilhjálmur skuli standa einn í framboðinu í þetta sinn. Guðlaugur Þór Þórðarson og Hanna Birna Kristjánsdóttir studdu dyggilega við R-listann með kjánalegri framkomu sinni fyrir síðustu kosningar. Því þykir vissara að halda þeim aðeins frá sviðsljósinu í þetta sinn og setja málefnalegri og hógværari einstaklinga í sviðsljósið að þessu sinni. En það heyrist bara ekkert í þeim. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sást einu sinni við íhaldsborð Ingva Hrafns á NFS um daginn. Þar var hún innan um öfgasinnaða frjálshyggjupúka sem þurftu að láta ljós sitt skína og auglýsa hve þeir væru klárir og hún komst varla að. Þá hefur Gísli Marteinn hefur verið of upptekinn við að vinna að framgangi Silvíu Nætur fyrir Júróvisjónkeppni vorsins að hann hefur ekki tíma fyrir kosningaslag.

Það er kannski engin ástæða til að kalla fram þetta lið að sinni. Ef yfirlýsingar Steinunnar Valdísar eru réttar, er þetta mál vegna þessara lóðamála við Úlfarsfell eins og stormur í vatnsglasi.

Þar fyrir utan er ég hjartanlega sammála þeim sem átelja þetta útboð á lóðum, því einungis forríkt fólk hefur efni á að leggja út 20 milljónir í lóðarspildu áður en hægt er að byrja að pjakka í jörðina. Svona brjálæði í lóðaverði hlýtur að spenna upp íbúðaverðið enn frekar en orðið var. Ég treysti bara ekki íhaldinu heldur til að stjórna borginni minnug þess hvernig spillingin var í stjórn borgarinnar í marga áratugi.

-----oOo-----

Að lokum vil ég taka fram að ég var ekkert að hóta því að hætta bloggi. Á meðan ég get haldið áfram að hrella fólk með ósvífnum skrifum mínum, mun ég halda áfram að ljúga að lesendum mínum. Það var bara svo skrýtið hve lesendunum fækkaði skyndilega seinnihluta vikunnar, rétt eins og ef ég hefði gert eitthvað á hluta Silvíu Nætur, Andrésar Fó og landsliðsins í tunnustafarennsli.


0 ummæli:







Skrifa ummæli