miðvikudagur, febrúar 22, 2006

22. febrúar 2006 - Að kanna hugi fólks

Í gær birtist skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Samfylkinguna og sýndi að ef gengið yrði til borgarstjórnarkosninga í dag, fengju Sjálfstæðisflokkur og Samfylking sjö fulltrúa hvor flokkur, en Vinstri hreyfingin grænt framboð einungis einn.

Sama dag var sagt frá annarri skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð og þar kom berlega í ljós að meirihluti fólks er á móti nýjum álverum.

http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2574128&e342RecordID=124231&e342DataStoreID=2213589

Niðurstöður þessara tveggja skoðanakannanna eru þess merkilegri fyrir þá sök að áður hafa verið gerðar skoðanakannanir sem sýna gerólíka niðurstöðu. Það er ekki langt síðan einhver skoðanakönnun var gerð fyrir Sjálfstæðisflokkinn ef mig misminnir ekki og sýndi sú könnun ásamt mörgum fleiri um svipað leyti að Sjálfstæðisflokkurinn hafði yfirburðastöðu í Reykjavík, reyndar mjög óeðlilega yfirburðastöðu, en þessi skoðanakönnun er líka jafn fáránleg.

Á sama hátt birtist könnun fyrir nokkru sem Landsvirkjun hafði látið gera sem sýndi mikið fylgi við stóriðjuframkvæmdir og uppbyggingu nýrra orkuvera.

Þessar tvær nýju skoðanakannanir sýna betur en margt annað, hve opinberar tölur úr slíkum skoðanakönnunum eru varasamar og um leið hve þau fyrirtæki og stofnanir sem selja þessar kannanir, sbr. Gallup og Félagsvísindastofnun, eru reiðubúin að selja sig ódýrt fyrir óskaðar niðurstöður að skapi þeirra sem biðja um þær.


0 ummæli:







Skrifa ummæli