Ég sit hér á aukalegri næturvakt í vinnunni. Svo eru allir svo vondir við mig, bara af því að ég held ekki með Silvíu Nótt í Júróvisjón. Ég fer bara grátandi heim.
Í hádeginu í gær er ég mætti í hádegismatinn í mötuneytinu, var talað um Silvíu Nótt á öðru hverju borði. Það kom mér reyndar ekki á óvart því að ég heyrði fólk lýsa yfir stuðningi við hana löngu áður en lagið hennar kom út á netinu. Ég fékk lagið sent, en ákvað að hlusta ekki á það fyrr en í sjónvarpinu. Svo er Silvía Nótt ekki í uppáhaldi hjá mér, ekki frekar en Hildur Vala sem þjáist af SilvíuNæturheilkenninu og finnst alveg ógisslega gaman að syngja með Stuðmönnum.
Mér er alveg sama hvað fólk segir um þetta ömurlega lag Silvíu alías Ágústu. Ég ætla að greiða Ragínu Ósk atkvæði mitt þótt peningunum sé kastað á glæ að tæpum tveimur vikum liðnum.
Hinsvegar fékk ég góða sendingu með póstinum í gær, dönsku skipaskrána 2006. Eins og allir vita sem hafa lesið bloggið mitt, er sögu íslenskrar kaupskipaútgerðar lokið, þökk sé stjórnvöldum. Við sem enn höfum gaman af að sjá fegurð þá sem fylgir mörgum farskipum, getum ekki lengur notið glæsileika íslenskra skipa. Glæsilegustu skipin sem sigla um heimshöfin eru frá Mærsk í Danmörku og einfaldasta ráðið til að fylgjast með þeirri glæsiútgerð er að kaupa reglulega skipaskrána með myndum sem nú er komin út í lit.
http://www.jtashipphoto.dk/Gudrun%20Maersk%20CH.jpg
Ég hefi því eitthvað til að gleðja augað á næturvaktinni.
þriðjudagur, febrúar 07, 2006
7. febrúar 2006 - Bloggleti
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:24
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli