fimmtudagur, maí 10, 2007

10. maí 2007 - Annað faðmlag við Gustavsberg

Ég kom við í opnu húsi hjá Ættfræðifélaginu í gær, miðvikudag. Ég hafði ekki komið oft þangað síðan ég hætti í stjórn félagsins, en fannst kominn tími til svo ég færi ekki að lýsa yfir algjöru frati á félagið.

Þar sem ég hafði rétt komið mér fyrir við stóra fundarborðið og teygði mig í kexköku og beit í, fann ég skyndilega hvernig ég fékk óvenjulegan magaverk, rétt eins og hnút í magann. Verkurinn leið ekki hjá strax svo ég gafst fljótlega upp á félagsskapnum, fór út í bíl, ók heim og lagði mig um stund. Eftir að hafa legið fyrir í um klukkutíma fann ég fyrir óstjórnlegri þörf á að faðma eitthvað kalt og karlkyns, fór fram á bað og faðmaði Gustavsberg í gríð og erg uns hann hafði tekið við öllu sem ég hafði etið þann daginn.

Ég fann hvernig kvalirnar linuðust eftir faðmlögin og brátt var ég orðin eins og nýsleginn túskildingur, gat tekið gleði mína á ný og haldið áfram að sinna þeim verkefnum sem hafði ætlað að framkvæma á miðvikudagskvöldið. Sömuleiðis rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði lent í nánast sömu vandræðum áður sbr gamla bloggfærslu frá 11. nóvember 2004.


http://blog.central.is/annakk//index.php?page=components&id=244612&y=2004&m=11&d=11

P.s. Ég held þó að magaverkurinn sé ekki af völdum einnar kexköku, heldur af öðrum og ókunnum ástæðum hvort sem það er af völdum einhvers í mínum eigin ísskáp eða þá af gömlu stressi sem er að taka sig upp algjörlega að ósekju.

-----oOo-----

Er ekki kominn tími til að veita Birni Bjarnasyni kærkomna hvíld frá störfum með kosningunum á laugardag og áður en hann veitir sálufélaga sínum Jóni HB Snorrasyni síðasta feita embættið sem enn er ekki skipað sálufélögum hans í hernaðarhyggjunni?


0 ummæli:







Skrifa ummæli