fimmtudagur, maí 03, 2007

3. maí 2007 - Framboð eldri borgara in memoriam

Þá er fyrsta framboð kosninganna búið að leggja upp laupana. Það var að vísu aldrei við miklu að búast úr þeirri áttinni, ekki síst eftir að aðrir eldri borgarar hófu að bjóða sig fram undir merkjum Íslandshreyfingarinnar, hægri grænir. Þess má geta að Ómar Ragnarsson verður löglegur eldri borgari hinn 16. september næstkomandi, en þá verður hann 67 ára og því hæfur til framboðs hjá eldri borgurum.

Í sjálfu sér geta eldri borgarar kennt sjálfum sér um. Ef ekki er hægt að standa við alltof rúmar framboðsreglur, verða framboðin sjálf að lúta í gras og finna sér annan vettvang fyrir óánægju sína með kjörin. Ástæða þess að ég segi alltof rúmar framboðsreglur eru einfaldlega þær að utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hefur þegar staðið yfir í fleiri vikur og reyndar ættu framboðin að vera komin fram með listana áður en hafist er handa um að kjósa utankjörstaðar.

Sjálf hefi ég fátt getað gert á miðvikudag, var á næturvakt og svaf síðan fram yfir hádegi. Hefi síðan verið að fullu við útréttingar og síðan þvotta ásamt því að setja inn myndir frá síðustu ferð.

-----oOo-----

Meðfylgjandi er mynd af útisalerni fyrir karlmenn sem 17. júní nefndin í Reykjavík mætti alveg taka sér til fyrirmyndar svo losna megi við hlandlyktina í öllum skúmaskotum í Reykjavík að kvöldi þjóðhátíðardagsins sem og að næturlagi um helgar.

http://images9.fotki.com/v187/photos/8/801079/4893574/IMG_1725-vi.jpg?1178151978

-----oOo-----

Svo fær stóra systir hamingjuóskir með afmælið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli