Ég ákvað að fá mér labbitúr umhverfis Elliðaárnar á þriðjudagskvöldið og hringdi í nöfnu mína og nágrannakonu og spurði hvort hún vildi ekki rölta með. Jú, endilega svaraði hún og er ég hafði sagt henni að ég kæmi við eftir kortér, svaraði hún því til að hún þyrfti að búa sig!!!
Ha, búa sig fyrir stutta gönguferð í blíðskaparveðri? Svo rölti ég yfir og mætti nágrannakonunni. Hún var komin á línuskauta og með allan öryggisbúnað í góðu lagi, olnbogahlífar, hnjáhlífar, hjálm og vettlinga. Svo tilkynnti hún mér að þetta væri hennar fyrsta línuskautaferð.
Við röltum af stað. Við vorum ekki komnar marga metra er nafna mín datt á rassinn í fyrsta sinn. Áður en við komumst að Rofabænum hafði hún dottið tvisvar. Er við fórum framhjá kirkjunni rétt náði ég að grípa hana svo hún dytti ekki í þriðja sinn. Og áfram var haldið. Hún datt ekki meir.
Þegar við höfðum farið yfir Vatnsveitubrúna og niður að stíflu mátti ég hafa mig alla við að ná henni og er ég kvaddi við húsið heima hafði hún náð allsæmilegu lagi á línuskautunum. Verst þótti mér að hafa gleymt myndavélinni heima áður en lagt var af stað.
Ég ætti kannski líka að prófa línuskauta við tækifæri?
miðvikudagur, maí 30, 2007
30. maí 2007 - Ég gleymdi myndavélinni!!!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:24
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli