fimmtudagur, maí 24, 2007

24. maí 2007 - Öl í glerflöskum versus Lalli Johns!

Eftir síðustu helgi hætti Öryggismiðstöð Íslands að birta auglýsingar þar sem ólánsmaðurinn Lalli Johns var látinn segja frá innbrotum. Burtséð frá því að Lalli hefur vafalaust verið glaður að fá þessa aura sem honum voru réttir fyrir að taka þátt í þessum auglýsingum, þá fannst mér áróðurinn gegn auglýsingunni óþarfa viðkvæmni. Þá hefur birting þessara auglýsinga vafalítið kitlað hégómagirnd hans auk þess að bjarga honum um smávegis skotsilfur

Tveimur dögum eftir að tilkynnt er um að hætt verði að birta auglýsinguna, sá ég aðra auglýsingu í sjónvarpinu. Þar var verið að auglýsa Tuborg öl og unglingar sýndir dansa með glerflöskur í höndum, vafalaust fullar af Tuborg öli. Ég skal verða síðust allra að gagnrýna ölið sem slíkt hvort sem það er sagt 0,0% í auglýsingunni eða sterkara, enda þykir mér ölið gott og það hefur löngum runnið ljúflega niður um kverkarnar.

Ég er hinsvegar lítt hrifin af þeim skilaboðum sem send eru til unglinga að það sé töff að dansa með glerflöskur í höndunum. Það er hægt að missa flöskurnar, brjóta þær, skera sig og misþyrma með glerflöskum og valda varanlegum örkumlum með slíku háttalagi hvort sem það er viljandi eða óviljandi.

Má ég þá heldur biðja um auglýsinguna með Lalla Johns.


0 ummæli:







Skrifa ummæli