föstudagur, maí 18, 2007

18. maí 2007 - Geir Haarde á mjólkurbílnum?

Ég fékk á tilfinninguna er ég heyrði viðtöl í Kastljósi sjónvarpsins á fimmtudagskvöldið, að trúnaðarbrestur hefði orðið í flestar áttir nema á milli Ingibjargar Sólrúnar og Geirs Haarde, sérstaklega vegna orða Guðna Ágústssonar. Hann nefnir bið Steingríms við brúsapallinn, (ætli Geir Haarde sé með próf á mjólkurbílinn), en einnig trúnaðarbrest sem Jón Sigurðsson hafði vísað frá sér nokkrum klukkustundum áður.

Ég er ákaflega efins um stjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Þar ber margt á milli, en þó enn frekar á milli minna skoðana og skoðana Sjálfstæðisflokksins. Þar ber hæst friðarmálin, en ég hefi aldrei sætt mig við stuðningsyfirlýsingu þeirra Davíðs og Halldórs við innrásina í Írak og væntanleg samsteypustjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks breytir engu þar um. Sjálf greiddi ég atkvæði með ákveðinni friðarstefnu ungra jafnaðarmanna á landsfundi Samfylkingarinnar í síðasta mánuði.

Þá er ég mjög efins um stefnu Sjálfstæðisflokksins gagnvart Evrópusambandinu þótt margir Sjálfstæðismenn séu Samfylkingunni sammála um nauðsyn aðildarviðræðna við EU. Önnur atriði eins og velferðarmálin er verra að meta fyrr en með birtingu málefnasamnings.

Orð Guðna Ágústssonar um kosningablað DV sem dreift var ókeypis í vikunni dæma sig sjálf. Guðni veit það jafnvel og ég að fylgishrun Framsóknarflokksins er löngu orðin staðreynd og að þessi snepill breytti engu þar um. Það að kenna þessu kosningablaði um tapið í kosningunum lýsir kannski best sárindum Guðna vegna missis ráðherrastólsins.


0 ummæli:







Skrifa ummæli