laugardagur, maí 19, 2007

19. maí 2007 - Gömul Moggalýgi!

Síðastliðinn miðvikudag var ég stödd í samkvæmi hjá formanni Samfylkingarinnar sem haldið var í tilefni kosningunum og því hversu vel tókst að rífa fylgi Samfylkingarinnar upp um nærri 10% á nokkrum vikum fyrir kosningar. Ég lenti þar á tali við gamlan baráttufélaga frá því á áttunda áratugnum og minntumst við meðal annars gamalla afreksverka og þá helst göngu einnar sem haldin var vorið 1977, þar sem gamli baráttufélaginn var ræðumaður á einum hvíldarstaðnum, en sjálf tók ég virkan þátt í skipulagi og framkvæmd göngunnar.

Laugardaginn 21. maí 1977 efndu Samtök herstöðvaandstæðinga til Straumsvíkugöngu þar sem áherslan var á baráttuna gegn stóriðju og auðvaldi. Þar sem við höfðum safnast saman við hlið álverksmiðjunnar í Straumsvík þótti okkur fjöldinn allmikill en erfitt að henda reiður á raunverulegum fjölda vitandi það Morgunblaðið kæmi svo með niðurskornar tölur af þátttökunni strax eftir helgina.

Ég og einn félagi Jón tókum okkur því til og ákváðum að telja allan hópinn. Eftir að gangan var farin af stað fórum við framfyrir gönguna og töldum hreinlega hausana í göngunni, haus fyrir haus svo ekkert færi á milli mála að við hefðum verið miklu fjölmennari en Mogginn héldi fram. Niðurstaða talningarinnar varð hálfgert áfall. Við höfðum talið okkur vera mun fleiri, en það voru rúmlega 1200 manns sem siluðust upp Hvaleyrarholtið. Síðan fjölgaði smám saman og var góð þátttaka þegar nær dró Reykjavík.

Aldrei gáfum við upp opinberlega fjöldann í göngunni. Til þess var hann of lítill. Þjóðviljinn nefndi síðan einhverjar tölur sem voru langtum hærri sannleikanum, en Mogginn fækkaði okkur niður í 800 – 1000 skv frétt 24. maí 1977 bls 2.

Mér finnst allt í lagi að nefna þetta núna þegar liðin eru 30 ár frá göngunni góðu, enda erum við nú á leið í stjórnarsamstarf með gamla íhaldinu.

Svei mér þá ef Stefán Pálsson núverandi formaður Samtaka hernaðarandstæðinga var ekki í kerru í fylgd foreldra sinna í göngunni, enda ávallt samur við skoðanir sínar á friði og réttlæti.


0 ummæli:







Skrifa ummæli