laugardagur, maí 05, 2007

5. maí 2007 - Dale Carnegie

Um síðustu helgi horfði ég á virðulegan enskan háskólaprófessor missa stjórn á skapi sínu og hundskamma ungan atvinnulausan mann sem hafði einungis unnið 70% af því verki sem honum höfðu verið falin. Þessi viðburður var því grátlegri sem ungi maðurinn hafði unnið verk sín í sjálfboðaliðavinnu og af hugsjónaástæðum. Þessi ungi maður sem vissulega hafði færst of mikið í fang hafði unnið betur en margir aðrir og átti skammirnar ekki skilið. Því setti mig hljóða og hugsaði með mér að enski háskólaprófessorinn, sem meðal annars hefur hlotið eina af æðstu viðurkenningum sem hægt er að hljóta í landi sínu úr hendi Bretadrottningar, hefði gott af að fara á Dale Carnegie námskeið. Daginn eftir hafði prófessorinn séð að sér og bað margfaldlega afsökunar á skapbresti sínum, en skaðinn var skeður. Það hafði myndast tilfinningaleg gjá á milli þessara tveggja manna sem báðir áttu sér svipaðar hugsjónir og höfðu stefnt að þeim í sameiningu.
Ástæða þess að ég rifja þetta upp nú er að ég sat á Dale Carnegie námskeiði í nærri þrjá mánuði nú seinnipart vetrar. Ég hafði heyrt margt jákvætt sem neikvætt um þessi námskeið, allt frá heilaþvotti sem alls hins besta sem hægt var að fá úr einu námskeiði og mig langaði til að prófa.

Í tólf vikur sat ég á námskeiði fjóra klukkutíma á mánudagskvöldum og einn klukkutíma á fimmtudögum auk heimalærdóms (ég viðurkenni að ég er ekki nærri búin með allan heimalærdóminn). Smám saman lærði ég að viðunandi árangur á námskeiðinu væri einvörðungu undir mér komið og mínum vilja til að bæta sjálfa mig. Þetta væri ekki einungis spurning um að læra að stjórna heldur og að láta stjórnast, að mæta hverjum degi með bros á vör og líta á hvert mótlæti sem áskorun um að gera enn betur en í gær. Sjálf fann ég fyrir innri breytingum með því að ég átti auðveldar með að viðurkenna eigin mistök, að ég átti auðveldar með að tjá tilfinningar mínar og um leið að láta fólk hlusta á skoðanir mínar.

Vissulega missti ég af síðasta tímanum þar sem ég var stödd í Amsterdam á sama tíma. Samt stóð námskeiðið í mér og ég fann hvernig innri styrkur minn hafði aukist verulega á örfáum vikum. Í gærkvöldi, föstudagskvöld, var svo haldið lokahóf námskeiðsins. Það var ástæða til að fagna, ekki einungis betri persónuleika okkar sjálfra, heldur og ástæða til að þakka leiðbeinendum okkar fyrir vel unnin störf, Reyni Guðjónssyni sem stýrði námskeiðinu af mikilli röggfestu og aðstoðarfólkinu Davíð, Önnu, Elínu, Kristínu og Helga.

Takk. Ég get með góðri samvisku hvatt allt það fólk sem þarf að leita út fyrir þægindahringinn sinn til að sækja sér Dale Carnegie námskeið. Sama gildir um fólk sem finnur sig eiga erfitt með að ráða skapsveiflum sínum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli