sunnudagur, mars 12, 2006

12. mars 2006 - Formúla Pfaff


Eins og fáum er kunnugt um, þá var ég algjör formúluáhugamanneskja og vakti heilu næturnar vitandi af uppáhaldsökumanninum mínum við keppni í Japan eða Ástralíu. Svo rammt kvað að þessu að ég missti ekki af einni einustu tímatöku í fleiri ár. Allt miðaðist við að ná næstu keppni í sjónvarpinu og þess vandlega gætt að fara ekki úr færi við sjónvarpstæki þá daga sem keppt var í góðakstrinum. Þetta voru líka taldir vera kraftmestu og hraðskreiðustu bílar sem framleiddir höfðu verið.

Síðan eru liðin allmörg ár. Ekki veit ég hvort það var með eða án leiðbeininga Sigurðar Helgasonar hjá Umferðarstofu sem stjórnendur Formúlunnar fóru að fyrirskipa allskyns hömlur á afl bílana svo þeir kæmust ekki svona hratt. Strokkunum fækkað niður í tíu og afgastúrbínurnar fjarlægðar, hvorutveggja löngu fyrir minn áhuga og svo allskyns minniháttar regluverk sem öll miðuðust við að draga úr afli bílanna auk þess sem lagðar voru fjöldi af nýjum beygjum á brautirnar til að draga enn meira úr hraðanum.

Vestur í henni Ameríku hélt þróunin áfram og brátt sigu bæði Cart (Indycar) og Nascar fram úr Formúlunni hvað afl snerti. Þeir tóku aukabeygjurnar af brautunum til að auka hraðann enn meir. Þessi mikli hraði og afl í amerísku keppnisíþróttunum hafa einnig leitt af sér háan fórnarkostnað. Það hafa orðið alvarleg slys þar, en mér er ókunnugt um hvort eða hversu mörg banaslys hafa orðið þar á undanförnum árum. Í Formúlunni hafa ökumenn ekki látið lífið síðan 1994, fáir slasast, en öryggisbúnaður verið bættur verulega síðan þá svo ekki er það skýringin á þessar miklu áherslu á að minnka vélarnar.

Nú hefur stórt skref verið stigið í að minnka vélarnar í Formúlubílunum. Frá og með þessu nýja keppnistímabili má einungis nota átta strokka saumavélamótora í Formúlunni. Nú eru það ekki lengur öflugar alvöruvélar, heldur Husqvarna og Necchi og Pfaff og Singer sem syngja fyrir okkur á meðan meistararnir aka sinn hefðbundna sunnudagsbíltúr. Ég held ég sleppi því að vaka yfir bíltúrnum í dag, þótt ég viti af uppáhaldsökumanninum og sjöfalda heimsmeistaranum á ráspól þegar ég kem heim eftir næturvaktina.

-----oOo-----

Það eru fleiri íþróttafréttir í gangi og ágætlega í samræmi við Formúlu Pfaff, en hetjurnar hugprúðu í Halifaxhreppi unnu enn einn leikinn í gær, hinn fjórða í röð. Með sigri sínum á Útgönguborg (Exeter City) í kvenfélagsdeildinni eru þær á góðri leið að tryggja sig í umspil um að komast í langneðstu deild á hausti komanda. Það verður örugglega eftirsjá að þeim úr kvenfélagsdeildinni ef þær verða svo óheppnar að lenda í ölþambaradeildinni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli