Ég held að kisurnar mínar hafi fundið á sér á miðvikudagsmorguninn að ég ætlaði að yfirgefa þær. Ég var rekin á lappir klukkan sex og enginn griður gefinn eftir það. Það var ágætt því fyrir bragðið hafði ég nægan tíma til að pakka og eins að skreppa í bæinn og skipta gallaðri snobbtösku sem ég hafði keypt.
Ef lítilsháttar seinkun á brottför á flugi er frátalin, gekk allt eins og í sögu. Á flugvellinum hitti ég Heiðar snyrti sem var að koma að utan. Alltaf jafn indæll og skemmtilegur. Ég var komin til Köben á tilsettum tíma og farin að drekka öl hálftíma síðar svo ljóst er að Magga smókur á til nægt öl í kofforti sínu. Nú er bara að finna eitthvað skemmtilegt til að skoða í dag, enda fólkið sem ég gisti hjá vel staðkunnugt og bílandi. Það verður hvort eð er ekki farið til Genf fyrr en á laugardag.
Það væri gaman að vita hverjir lesenda minna hlýddu ákalli mínu og fór að sjá mig í bíó.
-----oOo-----
Svo fær lítil prinsessa að nafni Margrét Rós hamingjuóskir með tveggja ára afmælið, 23 mars.
miðvikudagur, mars 22, 2006
23. mars 2006 – Í höfuðborg Möggu smóks
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:14
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli