þriðjudagur, mars 07, 2006

7. mars 2006 - Öll egg í sömu körfu?

Það hefur lengi loðað við Íslendinga að þeir vilji hafa öll egg í sömu körfu. Lengi vel stjórnaðist efnahagur þjóðarinnar af sjávarútvegi. Mikill meirihluti þjóðarteknanna kom frá sjávarútvegi og aflabrögð og verð aflans á heimsmarkaði stjórnaði hér öllu eins og hér væri ein allsherjar verstöð og fátt annað. Svo kom álver á tíma þegar allt var á leið til andskotans sökum þess að saman fóru hrun síldarstofnsins og verðhrun á fiskmörkuðum erlendis. Þrjátíu árum síðar kom álver númer tvö og nú álver númer 3. Nú er farið að tala um að verið sé að setja öll eggin í sömu körfuna.

Ástæða þess að ég skrifa þetta núna, er gagnrýni á pistil minn frá því í gær. Þar nefndi ég klúðrið í Landspítalamálinu, um “Jón Kristjánsson sem ætlar að eyða milljarðatugum í svokallað hátæknisjúkrahús, sjúkrahús sem er á vitlausum stað, óþarflega dýrt og gjörsamlega úr takt við framtíðina.”

Það er vissulega mjög sniðugt útfrá hagkvæmnissjónarmiði að byggja eitt stórt spítalamonster sem rúmar rúmlega alla sjúklinga þjóðarinnar og þar sem allir verkferlar heilbrigðisþjónustunnar rúmast undir sama þaki. Þetta er alveg stórsniðugt í milljónasamfélögum þar sem sjúklingafjöldinn er hundraðfalt meiri en hér á landi. Til þess að það borgi sig að reisa slíkan spítala verður því að hundraðfalda sjúklingafjöldann. Ég held að það sé ekkert sniðugt að fjölga sjúklingunum svona mikið. Hvað ef eitthvað kemur fyrir umræddan spítala og hann verður ónothæfur vegna bruna, jarðskjálfta eða hryðjuverka? Þá er enginn spítali eftir til að taka á móti sjúklingunum sem hugsanlega slasast í sama jarðskjálfta. Semsagt, svona monster á ekki rétt á sér í litlu landi eins og okkar. Það væri nær að dreifa áhættunni.

“Hátæknisjúkrahúsið” er á vitlausum stað. Miðborg Reykjavíkur er löngu orðin að úthverfi og fjarri helstu umferðaræðunum í átt til Reykjaness og Vesturlands. Í miðborginni býr einungis lítill hluti íbúa Reykjavíkur. Það væri nær að byggja spítala á öðrum stað, t.d. í námunda við Vífilsstaði og annan nærri norðausturhverfum borgarinnar og síðan efla sjúkrahúsin annars staðar á landinu, en viðbúið er að sjúkrahúsin á landsbyggðinni verði látin gjalda fyrir ósómann sem fylgir monstrinu. Þá gæti Landsspítalinn þjónað ágætlega sem hverfissjúkrahús fyrir þessa fáu íbúa sem eftir eru vestan við Elliðaár. Þannig yrði íbúunum best þjónað. Því er hugmyndin um monstrið bæði á vitlausum stað og úr takt við framtíðina.

Það er rætt um að henda milljarðatugum í steinsteypu. Sjúkrahús landsmanna hafa lengi verið í fjárhagslegu svelti og vart til aurar til að reka spítalana. Ég get ekki séð að monstrið bæti þar úr. Hinsvegar er sú hættan að heilbrigðisstarfsfólki verði sífellt núið um nasir að það fékk nýjan spítala og nú þurfi að herða sultarólina enn frekar. Monstrið mun því svelta heilbrigðiskerfið enn frekar en nú er og hindra eðlilegan rekstur spítalanna.

Það hefur lengi loðað við Íslendinga að þeir vilji hafa öll eggin í sömu körfu. Ég óttast afleiðingarnar þegar þetta verður líka látið gilda um sjúkrahúsin á Íslandi, þegar þau verða að mestu leyti komin undir sama þak.

-----oOo-----

Nágranni minn í næsta húsi gleymdi að setja beinskipta bílinn sinn í gír þegar hann yfirgaf bílinn í gær. Þegar hann var farinn inn til sín rann bíllinn af stað afturábak og niður á næstu bílastæðaröð fyrir neðan. Þar rétt slapp hann við að rekast á vinstrigrænan Subaru og hafnaði uppi á kanti á milli bílastæða. Þetta er annar bíllinn frá sömu blokk sem fer mannlaus af stað og í báðum tilfellum munaði litlu að þeir stórskemmdu eðalvagninn minn. Ætli nágrönnum mínum í næstu blokk sé eitthvað illa við mig?


0 ummæli:







Skrifa ummæli