laugardagur, mars 04, 2006

4. mars 2006 - Erfiður pistill

Þessi pistill sem ég skrifaði í gær var erfiður og helst hefði ég kosið að þurfa aldrei að skrifa svona pistla á bloggið mitt. Ég leit hinsvegar svo á að það væri óumflýjanlegt að koma þessum atburði í dagsljósið á Íslandi rétt eins og víða annars staðar í heiminum.

Börnin fjórtán sem frömdu þennan hryllilega verknað eru fórnarlömb, ekki eins og sú myrta, en þau eru fórnarlömb mannfyrirlitningar, haturs og fordóma samfélagsins. Þeim er að auki gert að snauta heim eftir þessa atburði sem hafa vafalaust brennt sig í sálu þeirra til lífstíðar og þau fá enga aðstoð við að vinna sig útúr þeim sálarkvillum sem fylgja verknaði af þessu tagi. Einungis elsta barnið sett inn á bak við lás og slá og þarf að svara til saka fyrir glæpinn. Á sama tíma sleppur sjálfur sökudólgurinn.

Sökudólgurinn er samfélagið sem lætur slíkan viðbjóð viðgangast án þess að fyllast reiði og sjálfsásökun. Sökudólgurinn er kaþólska kirkjan í Portúgal sem í stað þess að fordæma verknað sem þennan, reynir að réttlæta hann með því að líkja transsexual fólki við barnaníðinga. Sökudólgurinn eru portúgalskir fjölmiðlar sem þegja yfir raunverulegum ástæðum morðsins sem er áunnið hatur og fyrirlitning á öllu því sem sker sig úr samhengi við meðaljóninn, en reyna þess í stað að koma sökinni á sjálft fórnarlambið.

Á fimmtudagskvöldið varð mér á að stilla á sjónvarpsrásina Ómega eftir að Gettu betur var búið í Ríkissjónvarpinu. Þar var Guðmundur Örn Ragnarsson sjónvarpsprédikari að flytja hugvekju sína og gerði sérstaklega að umræðuefni það sem hann kallaði kynvillu og orð 3. Mósebókar þar sem hvatt er til þess að samkynhneigt fólk skuli líflátið. Með því að slíta Biblíuna úr samhengi við sjálfa sig, gerði hann sig sekan um glæp fordómanna, við 233 grein hegningarlaganna. Það ríkir vissulega málfrelsi á Íslandi, en fólk verður að bera ábyrgð orða sinna. Líka Guðmundur Örn Ragnarsson. Því finnst mér sjálfsagt að orð hans verði skoðuð gagnvart 233. grein hegningarlaganna. Ekki veit ég hver refsingin er við því þegar einhver hvetur til manndrápa í ræðu eða riti.

Á undanförnum árum hefur verið haldinn minningardagur um það það fólk sem flokkast sem transgender eða transsexual og fallið hefur fyrir morðingja hendi síðasta árið. Þessi minningardagur var síðast haldinn 20. nóvember síðastliðinn víða um heim í minningu þeirra 28 transgender manneskja sem fallið höfðu fyrir morðingja hendi síðustu tólf mánuðina á undan. Það er greinilega orðin full ástæða til að virkja þennan dag á Íslandi einnig.

http://www.gender.org/remember/day/index.html


0 ummæli:







Skrifa ummæli