þriðjudagur, mars 21, 2006

21. mars 2006 - Rás 2


Ég var að hlusta á Poppland á Rás 2 í gær. Slíkt þykir ekkert í frásögur færandi þótt ég hlusti á útvarp, en mér fannst óvenju leiðinleg tónlistin sem spiluð var, meira og minna léleg bílskúrsbönd að spila sitt hráa og vanþróaða rokk. Kannski var tónlistin svona léleg í tilefni af því að ungi útvarpsþulurinn og ættarlaukur fréttastofunnar var að kynna Músiktilraunir 2006 sem mér skilst að hafi átt að vera um kvöldið eða kannski einhverntímann seinna. Að minnsta kosti ákvað hann að gefa fólki kost á að hringja inn og fá miða á þessa tónleika.

Það hringdi kona ein í stúdíóið, en í stað þess að þiggja miða á Músíktilraunir, hóf hún að hundskamma drenginn fyrir lélegan tónlistarsmekk. Fleiri komu á eftir og kvörtuðu sáran, meira að segja einn sem vildi meira af norðlenskri tónlist og nefndi Geirmund Valtýsson til sögunnar.

Ég verð að viðurkenna að fólkið hafði mikið til síns máls. Rás 2 er ekki bara fyrir unglinga undir tvítugu. Hún á að vera rás þar sem allar tónlistarstefnur þrífast, ekki bara hrátt bílskúrsrokk. Það eru til nokkrar útvarpsstöðvar sem spila hráa unglingatónlist allan sólarhringinn. Ég kann ekki að nefna þær útvarpsstöðvar því ég hlusta ekki á þær.

Það þýðir ekkert að vísa okkur á Rás 1. Þar er lítið um alhliða tónlist gamla sem nýja, popp og vandað rokk, íslenska tónlist í bland við erlenda, flestar tónlistarstefnur. Rás 2 á að þjóna þeim hlustendahópi sem vill hlusta á alla almenna tónlist hvort heldur er Spæs görls eða Pink Floyd. Svo mega þeir alveg kalla Gest Einar aftur inn á Rás 2.

Mig grunar að nokkrir miðar hafi ekki gengið út á Músíktilraunir 2006 eftir skemmtilegt innlegg reiðu konunnar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli