Ég lenti á fyrirlestri í gær undir heitinu: “I was fired because I am gay”. Sá sem talaði var fyrrum einn af æðstu yfirmönnum Coca Cola í Mið-Ameríku, næststærstu verksmiðju fyrirtækisins í heiminum og með tugi þúsunda fólks í vinnu.
Roberto Mendoza þurfti að dvelja um tíma í Niqaragua vegna starfa sinna og af félagslegum ástæðum ákváðu hann að sambýlismaður hans að staðfesta samvist sína áður en haldið var á ótroðnar slóðir. Þá varð fjandinn laus. Allt í einu varð allt ómögulegt og nokkru síðar var honum sagt upp störfum hjá Coca Cola útaf léttvægum ástæðum.
Roberto Mendoza fór í mál við Coca Cola. Það var ljóst að einasta ástæða uppsagnar hans var hómófóbía og hann var sá maður að þora að berjast við ofureflið. Fram að þessu hefur hann unnið málið í undirrétti, en gerir sér ljóst að hann á enn langa baráttu fyrir höndum áður en fullnaðarsigur er unninn.
Þegar fyrirlestrinum var lokið og Roberto Mendoza hafði svarað fyrirspurnum frá yfir sig hneyksluðum áheyrendum sínum, var blásið til matarhlés á alþjóðaþingi ILGA í Genf. Þar sem ég og nokkrir fulltrúar Norðurlandanna höfðum sest til borðs með kjúklinginn okkar sagði einhver: “Jag tror vi gör ett stort fel” Mér var litið á drykkinn sem ég hafði valið mér með matnum og svo á drykk hinna og við skömmuðumst okkar.
Með ráðstefnunni um “Discriminating in Work Place” lauk fyrrihluta alþjóðaráðstefnu ILGA í Genf. Sjálf aðalráðstefnan er eftir. Ég tek ekki þátt í henni, en fékk leyfi frá Íslandi til að fá umboð til að kjósa skandinavískan ungan mann í aðalstjórn ILGA. Þessi strákur er kapteinn í sænska flughernum að nafni Krister Fahlstedt. Flottur strákur og blond eins og Þórður. Ég set inn mynd af honum á bloggið þegar ég kem heim til Íslands.
-----oOo-----
Ég átti gott samtal við Jamison Green í kaffihléi. Ég hafði kynnst honum á laugardaginn var á Pub Britannia hérna hinum megin við hornið en vissi þá ekki hvað hann hafði afrekað á bókmenntasviðinu. Ég innti hann eftir mjög svo jákvæðum ummælum Kate Bornstein um sig og hann viðurkenndi að hafa skrifað bókina “Becoming a Visible Man”. Þessi bók, árituð af höfundi, er auðvitað komin á náttborðið hjá mér. Alveg stórkostlegur náungi.
-----oOo-----
Mig langar til að láta vita af því að IBM hefur lofað stuðningi við LGBT fólk í heiminum. Gamla IBM fartölvan mín bilaði aldrei á meðan hún var í minni eigu og nú á ég nýja IBM ThinkPad. Ég vildi bara láta af þessu sem og að Nýherji hf selur IBM fartölvur. Og ég sem sat við hlið fulltrúa IBM allan gærdaginn og hann sagði mér ekkert um stuðninginn þótt við ræddum heilmikið saman um Kanada og Íslendingabyggðir vestra.
miðvikudagur, mars 29, 2006
30. mars 2006 - Coca Cola
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 22:37
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli