miðvikudagur, mars 22, 2006

22. mars 2006 - Bíódagar

Ég fór í bíó í gærkvöldi. Er kerlingin alveg orðin snarvitlaus? kann einhver að spyrja. Þetta er í fjórða sinn á nýbyrjuðu ári sem hún fer í bíó. En nú var ástæða til þess að fara í bíó því að ég var í litlu hlutverki í stuttri heimildarmynd um líf transgender fólks á Íslandi og sem sýnd var sem aukamynd með aðalmyndinni á Hinsegin bíódögum sem hét “100% manneskja” og fjallaði um norska stelpu sem fæddist í strákslíkama.

Íslenska aukamyndin sem hefur hlotið heitið “Transplosion” fjallar um fjórar transgender manneskjur á Íslandi, mig, Díönnu Ómel sem senn kemst í aðgerð, Valdísi sem stefnir að því að komast í aðgerð á næstu árum og loks “Karl”, transgender strák sem fæddist sem stelpa og flutti síðar til útlanda í þeim tilgangi að komast í aðgerð.

Þegar Halla Kristín Einarsdóttir hafði sambandi við mig og bað mig að vera með í myndinni, var ég ekkert of hrifin, hafði ákveðna vantrú á myndefninu og þó aðallega enn einni umfjölluninni um mig. Eftir á að hyggja verð ég að viðurkenna að Höllu tókst verkefnið ljómandi vel og ég er stórhrifin af myndinni þótt ég hefði gjarnan viljað vera aðeins minna áberandi í myndinni. En hvað á að gera þegar allt hitt fólkið bendir á mig og segir: Þetta er allt þér að kenna, þú byrjaðir. Og ég sem byrjaði alls ekki neitt.

Seinni sýning á myndunum “100% manneskja” og “Transplosion” verður í Regnboganum í kvöld, miðvikudagskvöld klukkan 20.00. Ég get alveg mælt með þessum myndum fyrir fólk sem vill læra eitthvað um tilfinningar.

-----oOo-----

Ef bílstjórinn á bifreiðinni RP-748 ætlar að reyna að selja mér bílinn sinn sem reyklausan bíl, þá gengur það ekki, því ég veit betur. Hinsvegar má sami bílstjóri hætta að nota götur sem ruslafötur.

-----oOo-----

Það gætu orðið sveiflur á bloggfærslum hjá mér næstu ellefu dagana. Ég fer til Kaupmannahafnar í dag og dvel næstu þrjá dagana á Hviids vinstue eða einhversstaðar þar í borg. Á laugardag fer ég svo til Genf á fundi og mannréttindaráðstefnur á vegum ILGA (International Lesbian and Gay Association), en stýrihópur evrópsku transgendersamtakanna ætlar að nota tækifærið og hittast og bera saman bækur sínar á undan og meðan á ráðstefnunni stendur. Um leið vil ég þakka Samtökunum 78 sem hafa veitt mér stuðning til þessarar ferðar. Sá hluti sem ég mun taka þátt í, er annars vegar ráðstefna um málefni transgender fólks en einnig hliðarráðstefna sem kallast “Discrimination in Work Place”


0 ummæli:







Skrifa ummæli