Fyrir nokkru var hámarkshraðinn lækkaður í 30 km/klst á Reykjanesbraut í Garðabæ og hvergi sást maður við vinnu. Sennilega hefur hámarkshraðinn verið lækkaður vegna þess að þeir ætluðu sér að þrengja Reykjanesbrautina verulega tímabundið sem kom svo í ljós nokkru síðar. Þó fékk þessi 30 km hraðatakmörkun að vera uppi í nokkra daga áður en hafist var handa við hina tímabundnu þrengingu. Enginn vissi af hverju nema kannski vegagerðarmenn á svæðinu.
Um daginn var ég að aka á Mosfellsheiði er ég kom skyndilega að skilti sem sagði mér að hámarkshraðinn væri 50 km/klst. Ekki vissi ég af hverju fyrr en ég heyrði það einhverjum dögum síðar að hámarkshraðinn hefði verið lækkaður vegna slitlagskemmda. Nú hefur verið tilkynnt að hámarkshraðinn hefur verið lækkaður niður í 30 km/klst vegna nýja hringtorgsins við Þingvallavegamótin í Mosfellsbæ.
Ég ætla ekki að kvarta yfir þessari lækkun á hámarkshraða sem slíkri. Ég geri mér fulla grein fyrir þeirri hættu sem vegagerðarverkamenn leggja sig í þar sem þeir eru að störfum á og við fjölfarna akvegi. Hinsvegar er það ljóst að ef enginn er að störfum á framkvæmdasvæði, skapast sú hætta að fólk hætti að taka mark á slíkum boðum. Þetta minnir mig á ítalska leigubílstjórann sem fór upp í 140 þegar hann kom að 40 km hraðatakmörkun í fyrra.
Ég held að það verði því að gera þá kröfu til þeirra sem bera ábyrgð á öryggi við slíkar framkvæmdir að þeir merki framkvæmdasvæði nógu vel, en einnig með ljósamerkjum eins og ég hefi oft séð erlendis, en oft eru sérstök ljós sem segja til um lægri hámarkshraða ef verið er að vinna á svæðinu. Í slíkum tilfellum er kveikt á blikkljósum þegar vinna hefst að morgni og jafnframt á skiltum sem segja til um lækkaðan hámarkshraða í 30 km, en svo er slökkt á þessum ljósum að kvöldi þegar fólkið fer heim. Blikkljósin mega reyndar vera blikkandi allan tímann sem og stiglækkaður hámarkshraði áður en kemur að sjálfu framkvæmdasvæðinu, en það er óþarfi að vera með stórlækkaðan hámarkshraða, jafnvel niður í 30 km þegar enginn er við vinnu, t.d. á kvöldin og um helgar. Slíkt veldur einungis virðingarleysi fyrir lækkuðum umferðarhraða.
fimmtudagur, júlí 19, 2007
19. júlí 2007 – Hámarkshraðinn lækkaður í 30 km meðan ....
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:10
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli