Ég held að ég sé að setja met í bulli. það eru komin þrjú ár síðan ég byrjaði að bulla bloggi, fyrst á blog.central.is, síðan í eitt ár á blogspot.com og nú á Moggabloggi síðan í desember síðastliðnum ásamt því að halda áfram á blogspot. Ég held að ég ljúgi engu er ég held því fram að ég hafi sent frá mér rúmlega 1200 pistla samtals og flettingar á þessum þremur árum eru orðnar nærri 400.000 þar af flestar á þessu ári.
Ekki hefi ég bara eignast vini á þessum þremur, heldur hafa og tveir aðilar lýst yfir slíkum fjandskap við persónu mína að undrum sætir. Þessir hatursaðilar eru kannski fleiri, en tveir hafa látið slíkt svo ótvírætt í ljósi við mig og aðra að ekki fer á milli mála hatur þeirra í minn garð og skoðana minna. Þótt ég sé stolt yfir hatri þeirra í minn garð ætla ég samt ekki að gefa upp nöfn þeirra að sinni jafnframt því sem ég tek það fram að hvorugur þeirra bloggar reglulega.
Með þessum orðum er ég búin að útiloka þá aðila úr óvinahópnum sem hent hafa mér út af bloggvinalistanum sínum. Sömuleiðis er ég búin að útiloka Jón vin minn Val frá þessum sjálfskipuðu óvinum mínum þótt hann þekki ágætlega annan þessara óvina, en margir halda að við séum svarnir óvinir vegna ólíkra skoðana okkar á flestum málum.
Eins og gefur að skilja hafa sum málefni orðið mér hugleiknari en önnur. Ég hefi því verið beðin um hætta að leggja Framsóknarflokkinn í einelti, beðin um að hætta að blogga eða einfaldlega beðin um að koma mér út í ystu myrkur. Eins og gefur að skilja ætla ég ekki að hlýða þessum beiðnum og mun ég halda áfram skrifum mínum um sinn, óvinum mínum til sárrar skapraunar en öðrum vonandi til ánægju.
Takk Pollý fyrir hjálpina fyrir þremur árum.
laugardagur, júlí 21, 2007
21. júlí 2007 - Þrjú ár af bulli
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli