þriðjudagur, júlí 03, 2007

3. júlí 2007 - Hryðjuverkin í Bretlandi

Bloggvinur minn Arngrímur Eiríksson sendi mér athyglisvert viðtal á dögunum í framhaldi af þeirri hryðjuverkaógn sem nú steðjar að Bretlandi. Mér þótti þetta viðtal mjög athyglisvert, en þótt ég sé ekki sammála því að öllu leyti, get ég ekki annað en samsinnt ýmsu því sem þar kemur fram:

http://youtube.com/watch?v=4xyM5XRcjMw

Ég fór að velta hlutunum fyrir mér. Þú setur gaskút eða gaskúta ásamt nokkrum pökkum af nöglum í dýran bíl, opnar frá gasinu og yfirgefur bílinn. Svo ætlast þú til þess að þú getir komið af stað sprengingu með hjálp gemsa. Það getur vel verið að það sé hægt, en þá notar þú ekki vandaðan þýskan bíl til verksins heldur einhvern enskframleiddan sem hugsanlega tætist í sundur við sprenginguna. Eða tætist einhver bíll í sundur við sprenginguna? Verður þetta ekki bara einhvert klúður? Kannski var tilgangurinn einhver annar en sá að drepa fólk.

Gordon Brown þurfti á athygli að halda. Í mörg hafði hann þurft að sætta sig við að vera í skugga Tony Blair þótt hann væri í reynd höfundur þeirrar stefnu sem Tony fylgdi í innanríkismálum. Hann þurfti því á að halda athygli sem beinir athyglinni að honum sem landsföður, en ekki bara sem fjárgæslumanns. Það þurfti því saklaus hryðjuverk til verksins. Nú eru þau komin. Að einhver hafi brennst í árásunum segir ekki annað en að eitthvað hafi farið úrskeiðis í árásinni á flugstöðina í Glasgow.

Það er líka til önnur skýring. Á síðustu hundrað árum hafa minna en 50.000 farist í hryðjuverkaárásum í heiminum. Til samanburðar má geta þess að 50+ milljónir fórust í seinni heimstyrjöldinni. Okkur stafar því mun minni hætta af hryðjuverkum en nokkru öðru, t.d. margfalt minni hætta en af umferðarslysum. Kannski er nóg að reka við til að skapa ótta.

Í fyrrasumar, skömmu eftir að rætt hafði verið um sprengju í fljótandi formi var ég stödd í flugstöðinni í Manchester þegar maður sem sat rétt hjá mér uppgötvaði að plastpoki með einhverju dóti lá við hliðina á leiktæki í brottfararsalnum. Hann tilkynnti um pokann og um leið kom heill her vopnaðra manna sem girti af þennan hluta flugstöðvarinnar, en áður en þeir náðu að gera meiri vandræði kom eigandi pokans og heimtaði hann til baka og fékk hann. Þar með var hættuástandi aflýst.

Einhverjir hugsanlegir hryðjuverkamenn höfðu náð tilgangi sínum. Með því að einhver saklaus vegfarandi gleymdi poka á förnum vegi, skapaðist spenna og nagandi ótti við hryðjuverk, nákvæmlega það ástand sem óvinir ríkisins vilja framkalla.

-----oOo-----
Í dag, 3. júlí 2007 verður Jóel Kristinn Jóelsson garðyrkjubóndi að Reykjahlíð í Mosfellsdal borinn til grafar. Á síðastliðnum vetri þegar fjölmiðlar voru á kafi í að úthúða starfsfólki og nágrönnum barnaheimilisins að Reykjahlíð í Mosfellsdal kom hann oft upp í huga mér, ekki einungis fyrir að vera faðir bestu félaga æsku minnar, heldur og fyrir þá vináttu sem hann sýndi börnunum á barnaheimilinu með því að virða þau sem vini sína og fór hann aldrei í manngreinarálit þótt misjafn væri sauður í mörgu fé.

Ég vil votta ekkju hans, Salóme Þorkelsdóttur fyrrum alþingismanni, börnum og barnabörnum og öðrum ættingjum samúð mína og minna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli