Ég gerðist túrhestur í einn dag á fimmtudag og fór hina hefðbundnu leið að Geysi, Gullfossi og Þingvöllum með hina fjóra gesti mína frá Svíþjóð. Ekki veitt mér af að rifja upp þessa leið, enda ekki farið hana í nokkur ár. Nánast allt var á sínum stað, Geysissvæðið, Gullfoss og Þingvellir.
Þrátt fyrir ánægju mína vegna bættra öryggisatriða við Gullfoss, þótti mér öllu verra að sjá og heyra hve Geysir og Strokkur eru orðnir daprir. Þessar svettur sem komu úr Strokki voru óttalega ræfilslegar samanborið við það sem var fyrir fáeinum árum síðan. Þótt kraumaði í Geysi skildist mér á starfsmanni sem ég talaði við, að Geysir gæfi frá sér smáskvettur öðru hverju og hafði ekkert komið frá honum síðan á miðvikudag er ég stoppaði þar. Það er því ljóst að eitthvað róttækt þarf að gera, annað hvort að bora aðeins í Geysi eða Strokk, nema slíkt sé gert á báðum stöðum til að opna inntaksrásirnar og auka þannig aðstreymið af heitu vatni sem er nærri suðumarki undir þrýstingi.
Það er alveg ljóst að þótt mikið hafi verið lagt í Geysissvæðið til að tæla að túrhesta, verður lítið gagn af þeim framkvæmdum ef Geysir og Strokkur fá að deyja drottni sínum.
Ætli þingmenn Suðurlands viti af þessu?
-----oOo-----
Ökumennirnir á PZ-682 og BH-996 fá svo falleinkunn fyrir að aka um 20 km undir hámarkshraða við bestu aðstæður, að safna bílum fyrir aftan sig og skapa þannig verulega hættu þegar bílar voru að reyna framúrakstur.
föstudagur, júlí 06, 2007
6. júlí 2007 - Túrhestur í einn dag
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:16
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli