Á mínum velmektarárum þótti góður siður að kenna biðstöðvar Strætisvagna Reykjavíkur við kennileiti í umhverfinu. Á þessum árum hafði vagnstjórinn hljóðnema fyrir framan sig sem hann galaði í nafn stoppistöðvarinnar þegar hann nálgaðist, Vegamót, Kleppur, Undraland, Tunga, Sogamýri, Lækjartorg. Með breyttu leiðarkerfi árið 1970 (eða var það með nýju strætisvögnunum árið 1968?)lagðist þessi góði siður af þótt íhaldið réði enn öllu í Reykjavík og sum nöfnin gleymdust ungu fólki sem ekki var vant þeim.
Á þessum árum var Gísli Marteinn Baldursson ekki fæddur. Nú hefur hann fengið þá snilldarhugmynd að gefa stoppistöðvunum nöfn rétt eins og að slíkt hafi aldrei verið gert áður. Nöfnin bera líka með sér að ekki má vekja upp gömlu góðu nöfnin heldur skal finna nýjar ambögur. Þannig fær fyrsta stöðin nafn í samræmi við upphrópun fyrrum verslinga á gamla skólanum sínum þ.e. Versló með setu, en fyrir okkur sem ekki vitum hvar Verslunarskólinn er til húsa, þá er hann sunnan Borgarleikhússins og Kringlunnar. Verzlunarskólinn með setu var hinsvegar lengst af við Þingholtsstræti/Grundarstíg/Hellusund. Borgarfulltrúinn er því greinilega ekki alveg með stafsetninguna og staðsetninguna á hreinu þótt 33 ár séu liðin frá því setan var lögð niður í íslensku máli.
Nú á að koma einhver stoppistöð sem heitir Stjórnarráð. Ekki veit ég hvaða staur fær það virðulega nafn, en á árum áður báru stöðvarnar andspænis Stjórnarráðinu nafnið Lækjartorg sem var um leið miðstöð strætisvagnasamgangna í Reykjavík, en sá hluti strætisvagnakerfisins sem hafði miðstöð norðan við stjórnarráðið hét Kalkofnsvegur. Nú þykja þau nöfn ekki nógu fín lengur.
Grátlegast finnst mér þó að skemmtilegasta nafni biðstöðvar gamla strætisvagnakerfisins skuli kastað fyrir róða og tekið upp nafnið “Gamla sjónvarpshúsið” í staðinn. Þetta var hið undurfallega nafn Undraland, en bærinn Undraland stóð einmitt þar sem nú eru háhýsi Öryrkjabandalagsins, neðan Laugavegarins andspænis húsunum við Laugaveg 176 til 178.
Við getum svo velt því fyrir okkur hvar gamla sjónvarpshúsið var mörgum árum eftir að sjónvarpið flutti alla starfsemi sína í Efstaleitið.
þriðjudagur, júlí 24, 2007
24. júlí 2007 - Undraland eða Gamla sjónvarpshúsið?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:35
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli