sunnudagur, júlí 08, 2007

8. júlí 2007 - Öfund mín í garð Baltasars Kormáks?



Ég sá það í fréttum að Mýrin hefði fengið aðalverðlaunin, hin svokölluðu “Crystal Globe Grand Prix”, á hinni heimsfrægu kvikmyndahátíð Karlowy Vary í Tékklandi. Mikill heiður sem leikstjóranum Baltasar Kormáki er sýndur með þessum verðlaunum.

Ég hefi aldrei heyrt þessara verðlauna getið fyrr. Baltasar Kormákur hefur þó væntanlega heyrt þessara verðlauna getið, enda hefur hann miklu meira vit á kvikmyndaverðlaunum en ég sem aldrei hefi framleitt kvikmynd, ekki einu sinni séð Mýrina og því ókunnugt um hversu mikið snilldareintak af kvikmynd hún telst vera.

Síðasta kvikmynd kappans sem ég barði augum var Hafið sem sýnd var í sjónvarpi fyrir einhverjum árum síðan. Ég man ekki hvort ég entist til að horfa á alla myndina, en hún hvatti mig ekkert til að horfa á fleiri kvikmyndir hins fræga leikstjóra. En það er ekkert Baltasar Kormáki að kenna þótt ég sé með svona hræðilegan kvikmyndasmekk að geta ekki horft á listaverk hans til enda.

Hinsvegar ættu Norðfirðingar að geta fagnað með því að þeir losnuðu við gamalt úrelt frystihús í eldi í kvikmyndatökum Baltasars Kormáks þegar Hafið var tekið upp. Sömuleiðis Baltasar Kormákur sem hefur væntanlega fengið 20.000 $ peningaverðlaun auk verðlaunagripsins ef marka má heimasíðu þessarar heimsfrægu kvikmyndahátíðar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli