Í gær, á meðan ég beið eftir henni Hrafnhildi ofurkisu, gaf ég mig á tal við nokkra unga krakka sem voru að leika sér á stéttinni á bak við húsið. Þegar Hrafnhildur birtist hópnum sá ungur piltur búsettur í næsta húsi, ástæðu til að hasta á kisuna og reyndi að reka hana í burtu. Ég var að sjálfsögðu ekkert sátt við atferli stráksa og spurði hvers vegna hún mætti ekki koma heim til sín?
“Veistu hvað hún gerði um daginn?”
“Nei, það veit ég ekki.”
“Hún hoppaði inn um gluggann heima hjá okkur og borðaði allan fiskinn sem við ætluðum að hafa í matinn.”
Af skepnuskap mínu gat ég ekki annað en farið að skellihlæja að frásögn stráksa áður en ég benti honum á að ef slíkt kæmi fyrir aftur, yrðu þau bara að hafa samband við mig svo hægt yrði að leysa málin í góðu.
Ég er örugglega ekki hátt skrifuð hjá nágrönnum mínum eftir þetta.
þriðjudagur, júlí 31, 2007
31. júlí 2007 - Skepnuskapur vélstýrunnar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:51
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli