sunnudagur, júlí 29, 2007

29. júlí 2007 - II - Lokaorð (vonandi) um Seifing Æsland

Þegar ég vann í Svíþjóð voru öflugar girðingar allt umhverfis þau orkuver sem við önnuðumst og efst voru fleiri lengjur af gaddavír. Víða voru myndavélar á svæðunum og öryggisvörður hafður til eftirlits á kvöldin eftir venjulegan vinnudag, en á nóttunni sá næturvaktin um eftirlitið.

Fljótlega eftir að ég byrjaði að vinna þarna fór ég að furða mig á öllu öryggiseftirlitinu og var þá bent á að þessar hörðu öryggisreglur hefðu verið teknar upp eftir að svokallaðir umhverfissinnar hefðu komist um allt nokkrum árum áður, lagt sjálfa sig og aðra í hættu og hengt upp borða gegn orkuverinu á milli tveggja skorsteina. Þó taldist orkuverið umhverfisvænt í þeim skilningi að það kom í staðinn fyrir tugi þúsunda af litlum orkuveitum með lélega brennslunýtni á hverju heimili með þeim kostum sem fjarvarmaveita gefur, en þess má geta að við sáum ekki bara vesturhluta Stokkhólms fyrir fjarvarma, heldur og Järfälla og Sollentuna eða nokkur hundruð þúsund íbúa sem bjuggu í þessum sveitarfélögum.

Í morgun gerði Eva Hauksdóttir athugasemdir við háðsskrif mín og annarra eftir að ungur meðlimur Seifing Æsland ók á hús á föstudag. Þótt ég skilji ekki alveg hvað hún er að fara með skrifum sínum, vil ég benda á að stundum er eðlilegra að svara heimskupörum með háði en með beinum aðgerðum gegn þeim. Þá er ég ekki aðeins að hugsa um það tjón sem felst í vinnutapi og hugsanlega öðrum aðgerðum til að koma í veg fyrir frekara tjón af völdum þessara svokölluðu umhverfissinna heldur og aðrar afleiðingar af aðgerðum þeirra.

Aðgerðir Seifing Æsland bjóða heim kröfunni á að settar verði upp víggirðingar umhverfis orkuver og framkvæmdir. Slíkt hefur ekki verið til siðs á Íslandi nema að litlu leyti hingað til auk þess sem orkufyrirtækin hafa opnað dyr sínar fyrir ferðamönnum á hverju sumri undanfarin ár og gefið ferðafólki takmarkaðan kost á að valsa um virkjanasvæðin. Þrátt fyrir vilja til að halda þessu samstarfi orkufyrirtækjanna og almennings áfram, hljóta þau samt að hafa öryggið í fyrirrúmi og umfram fróðleiksfýsn óviðkomandi fólks. Aðgerðir Seifing Æsland vinna gegn þessu markmiði um leið og hætta er á að stór svæði verði girt af í framtíðinni til að koma í veg fyrir frekari spjöll og varasamar mannaferðir.

Ég ætla því að vona að þessir átta dagar í varðhaldi fyrir einhver ungmennanna í Seifing Æsland nægi til að þau láti af mótmælum sínum svo ekki þurfi að grípa til stórfelldra víggirðinga á hálendinu til að halda þeim í burtu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli