Nokkrir eðalbloggarar hafa rekið áróður gegn Moggabloggi síðasta árið og óbeint bent á forheimskun þá sem fylgir fréttatengdu bloggi. Ég ætla ekkert að telja upp nein nöfn í þessu sambandi, en stundum er ég alveg sammála þeim aðilum sem halda uppi stöðugri gagnrýni á Moggabloggið, ekki Moggabloggið sem slíkt enda er það þægilegasta bloggsetur sem ég hefi unnið með. Forheimskun segir heldur ekkert um uppsetningu á bloggi, heldur er það innihaldið sem segir meira um gáfnafarið.
Mér hefur nokkrum sinnum blöskrað sú meðvirkni og vafasama gáfnafar sem hefur fylgt einstöku fréttum eða fréttatengdu efni sem farið hefur af netfréttamiðlum og inn á bloggsíður. Einhver gárungi á Selfossi lagði til, að ég held í gríni, að lögreglan fengi sér naglamottur til að stoppa af ökumenn bifhjóla sem aka of hratt. Fleiri aðilar í bloggheimum tóku undir þetta gjörsamlega hugsunarlaust þótt slíkar naglamottur jaðri við morðtilraun.
Nokkrum dögum síðar komst kjaftasagan um hundinn Lúkas í hámæli. Bloggarar kepptust þá við að hóta meintum árásarmanni án þess að vita einu sinni hvort hundurinn væri lífs eða liðinn. Það kom svo í ljós að hundræfillinn var enn á lífi og virtist hafa komist ágætlega af á ruslahaugum Akureyrarbæjar eða nágrenni þeirra. Eitthvað held ég reyndar að þá hafi sljákkað í verstu bloggurunum, en samt. Menn eru fljótir að gleyma.
Á sunnudag var maður drepinn í Reykjavík og aftur voru bloggararnir fljótir að koma með sína sýn, misgáfulega eða þá að þeir endursögðu það sem Mogginn hafði birt nokkrum mínútum áður. Ég fór að skoða þessi “fréttablogg”. Mörg voru bara hreint bull eða endursögn fréttanna auk þess sem nokkrir Moggabloggarar kostuðu sér á lyklaborðið og sögðu eitthvað hjárænulegt bull í hvert sinn sem Mogginn sagði eitthvað nýtt.
Ég er enn að velta fyrir mér hvort ég eigi að halda áfram á Moggabloggi eða snúa mér að einhverju vitrænna. Dæmin að ofan hvetja mig ekki til að halda áfram á bloggsvæði sem stefnir í það að verða hreint fréttablogg án nokkurra sjálfstæðra skoðana bloggaranna sjálfra.
mánudagur, júlí 30, 2007
30. júlí 2007 - Forheimskun Moggabloggsins
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:59
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli