þriðjudagur, júlí 24, 2007

25. júlí 2007 - Eyjagöng

Ég hefi aldrei farið ofan af hrifningu minni á jarðgöngum hvort heldur er í gegnum fjöll eða undir firði. Hvalfjarðargöng heppnuðust betur en nokkur þorði að vona í upphafi, göng á milli Ísafjarðar, Súgandafjarðar og Önundarfjarðar hafa reynst vera hin besta samgöngubót fyrir annars deyjandi byggðalög og nú á að reyna að bjarga byggðarlögum á Tröllaskaga með gangatengingu í gegnum Héðinsfjörð. Þá er ég ekki í nokkrum vafa um gæði jarðgangna á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar og bíð í ofvæni eftir göngum undir Lónsheiði og Vaðlaheiði auk nýrra og betra ganga á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar.

Á þriðjudag heyrði ég viðtal við Árna Johnsen þar sem hann vildi gera sem minnst úr skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen um kostnað við hugsanleg Eyjagöng. Þar gat ég ekki heyrt betur en að Árni talaði verð Eyjaganga niður í 700 þúsund fyrir hvern lengdarmetra sem svar við tölum VST sem voru minnst fjórfalt hærri.

Þegar Hvalfjarðargöng voru gerð fór allt framúr björtustu vonum, verð, gæði bergsins, leki og nákvæmni. Það þurfti sáralítið að fóðra göngin og vinnunni lauk á mörgum mánuðum fyrr en ætlað var í upphafi. Þrátt fyrir að allt gengi eins og best var á kosið kostuðu Hvalfjarðargöngin um 800 þúsund á hvern lengdarmetra á verðlagi sem gilti fyrir nærri áratug síðan. Nú eiga Eyjagöng bara að kosta 700 – 900 þúsund á lengdarmetrann sem er 100 - 300 þúsundum króna lægra en tölur Ægisdyra fyrir ári síðan! Þarf ekki að skoða höfuðið á Árna Johnsen?

Mér er sagt að bergið á milli lands og Eyja sé að miklu leyti mjög gljúpt hraun. Það þarf því að fóðra göngin að miklu leyti, kannski alla leið og samt er óvíst hvort göngin geti orðið að veruleika þótt beitt sé fóðrun alla leið auk styrkinga til að tryggja að göngin falli ekki saman. Þar koma til aðrir umhverfisþættir svo sem meiri jarðskjálftatíðni en við Hvalfjarðargöng, hugsanleg neðansjávargos og kvikuhlaup neðanjarðar.

Því er viðbúið að göngin muni ekki kosta 20 milljarða, öllu heldur 80 til 100 milljarða eða fjórar til fimm milljónir á hvern lengdarmetra. Þrátt fyrir hrifningu mína á Vestmannaeyjum og Eyjamönnum, þá held ég að þessum fjármunum sé betur komið fyrir við aðrar framkvæmdir.


0 ummæli:







Skrifa ummæli